Fataverslunin Forever 21 hefur sótt um greiðsluskjól (e. chapter 11 bankruptcy) í Bandaríkjunum. Samkvæmt yfirlýsingu frá fyrirtækinu verða bæði verslanir og vefsíður þess opnar á meðan unnið er að því að vinda ofan af starfseminni. Reuters greinir frá.
Forever 21 hefur vinsælt hjá ungum konum. Verslunin hefur hins vegar átt í rekstrarerfiðleikum að undanförnu, m.a. vegna verðhækkana og aukinna vinsælda netverslana.
Fyrirtækið hefur áður sótt um greiðsluskjól árið 2019 og kom þá hópur fjárfesta því til bjargar.
Tískuverslunin var stofnuð í Los Angeles árið 1984 af suðurkóreskum innflytjendum. Ódýru fötin og skartið sem verslanir buðu upp á urðu sífellt vinsælli meðal ungs fólks. Árið 2016 voru verslanir þess 800 talsins á heimsvísu, þar af voru 500 í Bandaríkjunum.