Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók formlega við embætti efnahags- og fjármálaráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Hún tekur við embættinu af Bjarna Benediktssyni sem sagði af sér á þriðjudag í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis um að honum hafi brostið hæfi við söluna á hlutum ríkisins í Íslandsbanka vorið 2022. Bjarni og Þórdís skiptust á ráðuneytum og er Bjarni því orðinn utanríkisráðherra.

Þórdís sagðist eftir fundinn í dag mjög spennt að taka við nýju, gríðarlega stóru og ábyrgðarmiklu hlutverki og að hún væri þakklát fyrir það traust sem í því fælist.

„Þetta er stórt og umfangsmikið ráðuneyti og á tímum þar sem það eru margar áskoranir. Það er auðvitað yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að gera hvað við getum til að ná tökum á verðbólgu þannig að hægt sé að lækka vexti, þannig að allt sem við gerum það verður einfaldlega að styðja við nákvæmlega það. Það er forgangsatriði að klára sölu á Íslandsbanka og losa okkur undan því eignarhaldi og það er forgangsatriði að leiða til lykta hið svokallaða ÍL-sjóðs mál. Ég mun nálgast það verkefni með það fyrir augum að í þeim felist annars vegar umbætur og hins vegar einföldun,“ segir Þórdís.

Í fjárlagafrumvarpinu er kveðið á um að helmingur af eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka verði seldur á næsta ári og restin 2025 en Þórdís sagðist munu leggja áherslu á að þeirri tímalínu yrði haldið en þau fylgi þeirri vinnu sem að fór í gang eftir síðustu sölu eftir.

Aðspurð um hvort hún sjái fyrir sér frekari sölu á eignarhlutum ríkisins sagði Þórdís að nýju ráðuneyti fylgi nýjar áherslur en að hún og Bjarni trúi á sömu grunn hugmyndarfræði.

„Ég er þeirrar skoðunar að það sem að ríkið segist ætla að sinna að það sinni því almennilega og við leggjum áherslu á það að losa okkur undan öðrum hlutum sem að aðrir geta sinnt. Þar eru mörg verkefni og ég mun fara yfir þau öll að sjálfsögðu og að allt sem við gerum feli í sér umbætur, einföldun og skýran fókus á hlutverk ríkisins.“

Brothætt og erfið staða

Annars væri af nógu að taka en verkefnin sem fylgi muni eiga hug hennar allan, líkt og utanríkismál hafi átt hug hennar allan síðastliðin tvö ár. Of há verðbólga og of hátt vaxtastig væri öllum hugleikið og kvaðst Þórdís vona að hún hefði stuðning bæði ríkisstjórnarinnar og almennings í að ná tökum á því.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út í byrjun næsta árs og ljóst þykir að takmörkuð innistæða sé fyrir miklum hækkunum.

Þórdís tók formlega við embættinu á ríkisráðsfundi í dag.

„Ég vil einfaldlega trúa því að þau sem að kjaraviðræðum koma vilji fyrst og fremst taka ábyrg skref sem að skilar sér í bættum lífskjörum fyrir fólk sem býr í þessu landi. Ef við náum ekki tökum á verðbólgunni, þannig það verði ekki forsendur til þess að lækka vexti eða jafnvel að verðbólga myndi hækka, þá færi það þvert á það markmið að bæta lífskjör fólks á Íslandi. Ég veit að staðan þar er viðkvæm, brothætt, erfið, það skortir traust á milli aðila og svo framvegis en ég er bjartsýn á að aðilar vinnumarkaðarins geti komið sér saman um langtímasamninga vegna þess að þar liggja raunverulegir hagsmunir almennings á Íslandi. Það hvernig stjórnvöld geta einhvern veginn komið að því eða liðkað fyrir, það auðvitað verður tíminn að leiða í ljós.“

Geta leitað til hvor annars

Lyklaskipti fara fram á mánudag en Bjarni Benediktsson hefur verið nær óslitið í fjármálaráðuneytinu í áratug.

„Ég tek við mjög öflugu ráðuneyti eftir mjög farsælan feril Þórdísar. Hún hefur tryggt að rödd Íslands heyrist skýrt, hátt og snjallt á alþjóðavettvangi þar sem hún hefur þorað að taka til máls oft og tíðum í mjög snúnum málum og viðkvæmum. Þannig ég mun njóta þess að geta leitað til hennar og vonandi verður það líka þannig á hinn veginn.“

Bjarni tók við sem utanríkisráðherra á fundinum.

Það væri ákveðinn léttir í lok viðburðarríkrar viku að binda endahnútinn á það hvernig þau haldi áfram að vinna að bættum hag heimilanna og takast á við efnahagslegar áskoranir. Mikilvægast sé að það náist árangur í að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og til þess sé pólitískur stöðugleiki algjör forsenda.

Hvað verkefni hans á nýjum vettvangi varðar segir hann öllum ljóst hversu mikilvægt sé að standa vörð um hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi. Fram til þessa hafi Þórdís Kolbrún verið óhrædd við að taka afstöðu í stórum og viðkvæmum málum.

„Það er nú langt liðið síðan við höfum séð aðra eins ófriðartíma eins og núna eru uppi og auðvitað er mér það hugleikið þegar ég stíg þarna inn. En það eru líka önnur verkefni sem tengjast íslenskri atvinnustarfsemi, það er að segja hagsmunagæslu fyrir útflutningsatvinnugreinarnar, og svo eru aðrir liðir í ráðuneytinu eins og borgaralega þjónustan og fleira. Þetta er mér allt saman hugleikið.“