Michel Barnier, forsætisráðherra Frakklands, hefur formlega sagt af sér eftir að vantrauststillaga gegn honum var samþykkt á franska þinginu í gærkvöldi. Enginn hefur gegnt embætti forsætisráðherra skemur í nútíma stjórnmálasögu Frakklands.

Forsetaembættið upplýsti fyrr í dag að Barnier hefði beðist lausnar en að Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefði beðið hann um að starfa áfram þar til nýr forsætisráðherra væri búinn að taka við.

Afsögn Barnier kemur í kjölfar þess að minnihlutastjórn hans, sem hafði starfað í þrjá mánuði, tókst ekki að tryggja sér meirihluta á þinginu fyrir fjárlagafrumvarpi sem fól í sér umtalsverðan niðurskurð. Hann nýtti því ákvæði í stjórnarskrá til að knýja í gegn frumvarpi um fjármögnun almannatrygginga. Stjórnarandstaðan lagði í kjölfarið fram vantrauststillögu gegn Barnier sem var samþykkt í gærkvöldi.

Macron mun ávarpa frönsku þjóðina í kvöld. Hann fundaði í dag með nokkrum þingmönnum og bandamönnum sínum.

Heimildarmenn Reuters sögðu í gær að Macron horfi til þess að skipa eftirmann Barnier mjög fljótlega og einn sagði að forsetinn stefni að því að gera það fyrir enduropnun Notre Dame kirkjunnar á laugardaginn. Donald Trump er meðal þeirra þjóðarleiðtoga sem mun sækja viðburðinn.