Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, tilkynnti í nótt að hún muni lata af embættinu þann 7. febrúar næstkomandi. Á landsfundi Verkamannaflokksins lýsti hún því að hún væri ekki lengur með „nóg á tankinum“ til að stýra ríkisstjórninni.
Ardern, sem hefur gegnt embættinu frá árinu 2017, sagði að síðustu sex árin hefðu verið krefjandi og tekið sinn toll. Hún hafi hugleitt stöðu sína síðasta sumar og vonast eftir að finna orku og drifkraft til að halda áfram í embættinu.
„Því miður þá heppnaðist það ekki og ég væri að gera Nýja Sjálandi ógreiða að halda áfram.“
Ardern mun láta af embættinu þann 7. febrúar næstkomandi. Í umfjöllun BBC segir að hin óvænta tilkynning komi á sama tíma og skoðanakannanir gefa til kynna að Verkamannaflokkurinn eigi undir höggi að sækja fyrir þingkosningar næsta haust. Þingmenn flokksins munu kjósa um eftirmann Ardern á sunnudaginn.