Ár er liðið frá því að langtíma kjarasamningur var undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Hinn svokallaði Stöðugleikasamningur var undirritaður þann 7. mars 2024 og tveimur vikum síðar höfðu félagsmenn VR, Eflingar og Starfsgreinasambandsins auk félagsfólks í fagfélögunum samþykkt samninginn. Önnur stéttarfélög á almennum vinnumarkaði sömdu á svipuðum nótum í kjölfarið.
Markmið samningsins var að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu, þar sem mikilvægasta verkefnið var að ná niður verðbólgu og háu vaxtastigi. Ársverðbólga mældist 4,2% í febrúar 2025, eða 2,7% án húsnæðis, og stýrivextir standa í 7,75% eftir 25 punkta lækkun fyrr í þessum mánuði.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, bendir á að þegar undirbúningur við kjarasamninga hófst haustið 2023 hafi verðbólga staðið í um 8% og stýrivextir verið 9,25%. Við undirritun kjarasamninga stóð verðbólga í 6,8% og stýrirvextir voru óbreyttir.
„Þannig að það er óhætt að segja að þróunin frá gerð kjarasamninga hafi verið í þá átt sem vonast var til. Við neitum því þó ekki að við vonuðumst til þess að stýrivextir væru orðnir lægri á þessum tímapunkti,“ segir Anna Hrefna en raunvextir séu nokkuð háir. Þá hafi við gerð kjarasamninganna legið forsendur til grundvallar um þróun efnahagsmála.
„Spár á þeim tíma gáfu til kynna að hagvöxtur yrði sterkari á árinu 2024 en raunin varð. Framleiðniþróun hefur jafnframt verið lakari en vonir stóðu til en atvinnulífið hefur að sjálfsögðu staðið við gerða samninga. Það skiptir máli þar sem aukin framleiðni er forsenda aukins kaupmáttar til lengri tíma.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.