Forseti Mexíkó, Claudia Sheinbaum, hefur gefið til kynna að hún mexíkósk stjórnvöld muni svara áformuðum tollum Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, á innflutning frá Mexíkó. Financial Times greinir frá.
Trump hét því í gærkvöldi að hann myndi leggja á 25% toll á allan innflutning frá Mexíkó og Kanada á fyrsta degi sínum í embætti forseta. Samhliða sakaði hann um að nágrannaríkin tvö hefðu ekki staðið við sitt þegar kemur að því að stöðva ólöglega fólksflutninga og fíkniefnasmygl.
Í bréfi sínu til Trump, sem hún las upp á blaðamannafundi í dag, sagði Sheinbaum að hótanir eða tollar séu ekki lausnir í málefnum innflytjenda eða eiturlyfjaneyslu í Bandaríkjunum.
„Einn tollur mun leiða til annars og þar fram eftir götunum, alveg þar til við höfum sett sameiginleg fyrirtæki okkar í hættu,“ sagði Sheinbaum og bætti við að bandarískir bílaframleiðendur væru meðal helstu útflutningsaðila til Bandaríkjanna.
Hún sagði jafnframt að tollar á slík fyrirtæki muni stuðla að aukinni verðbólgu og atvinnuleysi í bæði Bandaríkjunum og Mexíkó.
Sheinbaum sagðist ætla að senda umrætt bréf til Trump í dag, þar sem hún mun leggja til aukins samtals við teymi Trump.
Mexíkóski pesóinn veiktist um 1,7% gagnvart Bandaríkjadollaranum í morgun, en gjaldmiðillinn hafði þegar veikst talsvert í ár. Kanadíski dollarinn veiktist um 0,7% og hefur ekki verið veikari gagnavart Bandaríkjadollaranum í fjögur ár.