Framkvæmdastjóra fjarfundafyrirtækisins Zoom, Greg Tomb, var óvænt sagt upp störfum á föstudag án tilgreindrar ástæðu að því er fram kemur í upplýsingagjöf félagsins til eftirlitsaðila sem BBC greinir frá.

Talsmaður félagsins segir leit ekki standa yfir að arftaka að svo stöddu. Tomb staldraði stutt við en hann tók við starfinu síðastliðinn júní, en félagið hefur eins og svo mörg önnur – sér í lagi tæknifyrirtæki – átt erfitt uppdráttar síðastliðið ár. Tap síðasta ársfjórðungs nam 100 milljónum dala og hlutabréfaverðið hefur fallið um 40% síðastliðið ár.

Í síðustu viku var tilkynnt um 1.300 uppsagnir á næstunni sem samsvarar um 15% starfsmannafjölda fyrirtækisins.

Tomb – sem heyrði beint undir forstjórann Eric Yuan – var áður hátt settur hjá tæknirisanum Google.