Forstjórar vestanhafs eru samkvæmt The Wall Street Journal að glíma við mikla óvissu vegna yfirvofandi forsetakosninga í nóvember.
Eitt af þeim atriðum sem óvissa ríkir um er hversu hár fyrirtækjaskattur verður en bæði Kamala Harris, forsetaframbjóðandi Demókrata og Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikana hafa heitið því að breyta fyrirtækjaskattinum.
Harris hefur lofað að hækka skattinn úr 21% í 28% sem er í samræmi við fyrri loforð sitjandi forseta Bandaríkjanna, Joe Biden.
Donald Trump hefur á hinn bóginn lofað að lækka fyrirtækjaskattinn í 20%, samhliða því hefur hann opnað á möguleikann á að lækka skattinn í 15%.
Samkvæmt WSJ eru forstjórar og fjármálastjórar í tómu basli með hvaða skattprósentu skal nota er framtíðarfjárfestingar eru reiknaðar út en skattaráðgjafar í Bandaríkjunum hafa verið að mæla með því að fyrirtæki noti 25% fyrirtækjaskatt í útreikningum sínum.
Ef fyrirtækjaskatturinn verður hækkaður eru allar líkur á að hann muni bíta meira í ár en áður en þegar skatturinn var lækkaður í 21% árið 2017 var undirstaðan breikkuð og nær hann því til fleiri tekna en áður.
Fjármálastjórar eru byrjaðir að reikna út möguleg áhrif hærri skatta á efnahagsreikning fyrirtækja sinna sem og áhrif á fjárfestingamöguleika.
„Ef þú ert með fimm fjárfestingarvalmöguleika er ágætt að vita í dag hvaða áhrif skattar gætu haft í náinni framtíð en það gæti skipt sköpum hvort valmöguleiki A eða E verði fyrir valinu,“ segir John Gimigliano, yfirmaður skattaráðgjafar hjá KPMG, í samtali við WSJ.