Brian Niccol, nýi forstjóri Starbucks, fékk tíu milljón dala ráðningarbónus ásamt milljónum dala í hlutabréfum fyrirtækisins þegar hann tók við starfinu. Ofan á það þarf hann ekki einu sinni að flytja til höfuðstöðva fyrirtækisins í Seattle.
Þessi fráfarandi forstjóri Chipotle mun þess í stað geta unnið að heiman í Suður-Kaliforníu og getur flogið til Seattle þegar þess þarf á einkaþotu fyrirtækisins.
Fyrirkomulagið setur Niccol í afar sjaldgæfa stöðu innan forstjóraheimsins en sýnir einnig hversu staðráðið Starbucks var í að ráða hann til vinnu.
Nýlega var greint frá því að Hillary Super myndi taka við sem forstjóri Victoria‘s Secret, en hún fær einnig að starfa í New York þrátt fyrir að höfuðstöðvar nærfatakeðjunnar séu staðsettar í Colombus í Ohio-ríki.
Fréttamiðillinn WSJ tók einnig fyrir fráfarandi forstjóra Boeing, Dave Calhoun, sem byrjaði að vinna að heiman þegar heimsfaraldur skall á fyrir fjórum árum síðan. Hann ferðaðist reglulega um á einkaþotu Boeing frá tveimur heimilum sínum í New Hampshire og Suður-Karólínu til höfuðstöðva Boeing.
Kelly Ortberg, nýi forstjóri Boeing, mun aftur á móti flytja til Seattle, þar sem fyrirtækið var stofnað og sér enn þann dag í dag um stærsta hluta framleiðsluferlisins.
Charlie Scharf, bankastjóri Wells Fargo, starfaði einnig í New York þegar hann tók við bankanum árið 2019 en sagði fjárfestum að hann myndi ferðast oft til höfuðstöðva Wells Fargo í San Francisco.