David Zaslav, forstjóri Warner Bros. Discovery og Bob Bakish forstjóri Paramount funduðu í vikunni til að ræða um mögulegan samruna sjónvarps- og framleiðslufyrirtækjanna tveggja.
Samkvæmt heimildum The Wall Street Journaleru forstjórarnir tveir einungis að tala saman á þessu stigi en formlegar samrunaviðræður milli fyrirtækjanna eru ekki hafnar.
Warner Bros. Samstæðan á meðal annars sjónvarpsstöðvar eins og CNN, TNT, HBO og HGTV ásamt því að eiga streymisveituna Max.
Paramount er með stærstu kvikmyndaframleiðslufyrirtækjum í heiminum en á einnig sjónvarpstöðvarnar MTV, CBS, Nickelodeon og Comedy Central ásamt streymisveitunni Paramount+.
Horfir hýru auga á NFL-deildina
Samkvæmt heimildum WSJ hefur Zaslav talað mjög opinskátt um áhuga sinn yfir samrunanum á skrifstofum Warner Bros.
Hann er sagður sjá hag í því að gera sjónvarpsefni Paramount aðgengilegt á streymisveitunni MAX. Þá er hann sagður einnig áhugasamur um að fá sýningarréttinn á NFL-deildinni sem er að hluta til í eigu CBS.
Samkvæmt The Wall Street Journal eru allar líkur á að samruni risanna tveggja myndi mæta miklum kvöðum frá eftirlitsaðilum í Bandaríkjunum og er með öllu óljóst hvort draumur forstjóranna tveggja geti orðið að veruleika.
Gengi beggja félaga lækkað
Tímasetning á viðræðunum er sögð engin tilviljun en National Amusements, móðurfélag Paramount, hefur verið að íhuga að selja dótturfyrirtækið en Skydance Media og fjárfestingafélagið RedBird Capital hafa sýnt því áhuga.
Hlutabréf í Warner Bros lækkuðu um 5,7% í gær á meðan hlutabréf Paramount lækkuðu um 2%.
Fregnir af mögulegum samruna birtust eftir lokun markaða í gær og héldu bæði félög áfram að lækka fyrir lokuðum markaði.