Alvotech tilkynnti í kvöld að forstjórinn Mark Levick hafi ákveðið að biðjast lausnar og Róbert Wessman, starfandi stjórnaformaður og stofnandi tekur við stöðu forstjóra. Breytingin tekur gildi 1. janúar næstkomandi.

„Við höldum áfram að laga Alvotech að örum vexti, þar sem við höfum færst af stigi þróunar, rannsókna og fjárfestingar í aðstöðu, yfir í lyfjaframleiðslu og erum að auka framleiðslugetu til að geta þjónað mörgum alþjóðlegum mörkuðum samhliða,“ segir Róbert í Kauphallartilkynningu sem Alvotech sendi frá sér í kvöld.

„Ég er mjög þakklátur fyrir tækifærið að vera hluti af vegferð Alvotech á spennandi skeiði í sögu þess,“ er haft eftir Mark Levick. „Ég varð þess aðnjótandi að vinna með einstaklega einbeittum og hæfileikaríkum samstarfsfélögum, í öllum deildum fyrirtækisins, til að innleiða lyfjaframleiðslu á fullum afköstum og bæta aðgengi sjúklinga að hagstæðum líftæknilyfjum. Þetta hefur verið hápunktur ferils míns í lyfjaiðnaðinum.“

Mark Levick, fráfarandi forstjóri Alvotech.
Mark Levick, fráfarandi forstjóri Alvotech.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hafrún ráðin framkvæmdastjóri rekstrar

Auk framangreindrar breytingar tilkynnti Alvotech um að Hafrún Friðriksdóttir hafi verið ráðin framkvæmdastjóri rekstrar. Hún var áður framkvæmdastjóri alþjóðlegra rannsókna og þróunar fyrir Teva frá árinu 2017 þar til fyrr á þessu ári.

„Það er mér sérstök ánægja að bjóða Hafrúnu velkomna í Alvotech teymið. Hún hefur getið sér gott orð í lyfjaiðnaðinum fyrir einstaka forystuhæfileika. Ég vil einnig þakka Mark fyrir framlag hans til Alvotech á þessu vaxtarskeiði og ánægður að við fáum að njóta áfram þekkingar hans, þar sem hann hefur samþykkt að leiða vísindaráð félagsins,“ segir Róbert.

Hafrún Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Alvotech
Hafrún Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Alvotech