Bernard Looney, forstjóri BP, hefur sagt af sér sem forstjóri rúmlega fjórum árum eftir að hafa tekið við stöðunni. Hann er sagður ekki hafa greint frá öllum samböndum sínum og tengslum við starfsmenn innan fyrirtækisins.

Í gærkvöldi var fjárfestum tilkynnt að Looney hafi viðurkennt mistök sín og hafi í kjölfarið yfirgefið BP, sem er metið á 88 milljarða punda.

Á þeim tíma sem Looney tók við stöðunni hafði hann upplýst stjórnendur fyrirtækisins frá fyrri samböndum hans með starfsmönnum fyrirtækisins. Hann hafði því ekki gerst brotlegur á siðareglum fyrirtækisins en nýlega hafa komið fram ásakanir sem leiddu til rannsóknar með utanaðkomandi lögfræðingi.

„Fyrirtækið er rekið með sterkum gildum og stjórnin ætlast til þess að allir innan félagsins hagi sér í samræmi við þau gildi. Það er sérstaklega ætlast til þess að allir leiðtogar fyrirtækisins sýni af sér afburðar dómgreind, séu fyrirmyndir og öðlist traust annarra,“ segir í yfirlýsingu frá BP.

Gengi breska olíurisans féll einnig um 2,74% í dag eftir að forstjórinn tilkynnti afsögn sína. Dagslokagengi BP í dag var 5,08 pund en félagið lokaði í 5,22 pundum við lokun markaðar í gær.

Looney ólst upp á mjólkurbúi á Írlandi og gekk til liðs við BP árið 1991 þegar hann var 21 árs gamall og hafði lokið rafmagnsverkfræði í Dublin. Hann gegndi svo mismunandi hlutverkum innan fyrirtækisins í Norðursjó, Víetnam og Mexíkó.

BP segir að engar ákvarðanir hafa verið teknar um um laun Looney eftir afsögn hans.