Matteo Fantacchiotti, forstjóri Campari-Milano, hefur ákveðið að segja af sér af persónulegum ástæðum aðeins nokkrum mánuðum eftir að hafa tekið við stöðunni.

Forstjórinn hafði tekið við af Bob Kunze-Concewitz í apríl á þessu ári eftir að hafa unnið sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins í Asíu.

Gengi Campari, sem framleiðir meðal annars drykkinn Aperol, hafði lækkað um meira en 15% á starfstíma hans samkvæmt WSJ. Hlutabréfin lækkuðu þá um 5,6% á föstudaginn síðasta eftir ummæli sem hann lét falla um stöðu markaðarins á fundi með fjárfestum.

Sala hjá fyrirtækinu jókst á tímum heimsfaraldurs þegar fleiri byrjuðu að kaupa flöskur til neyslu heima fyrir. Slæmt veður hefur hins vegar haft áhrif á framboðið á agave, sem notað er til að framleiða tekíla.