Ivan Menezes, forstjóri vínframleiðandans Diageo, er látinn 63 ára að aldri. Menezes hafði starfað hjá fyrirtækinu í 25 ár en varð forstjóri þess árið 2013.

Fregnir af andláti forstjórans koma aðeins tveimur dögum eftir tilkynningu Diageo um að Debra Crew, rekstrarstjóri fyrirtækisins, skyldi taka við af honum. Þá var Menezes þegar lagður inn á sjúkrahús en hann hafði lengi vel glímt við veikindi.

Að sögn Diageo átti Menezes heiðurinn af því að hafa stækkað vörumerki fyrirtækisins til muna en Diageo selur meðal annars vörumerkin Guinness, Johnnie Walker og Smirnoff. Fyrirtækið selur í kringum 200 vörumerki í 180 löndum.

Menezes var meðal annars sæmdur riddaraorðu Karls III Bretlandskonungs í janúar á þessu ári en hann var með bæði breskan og bandarískan ríkisborgararétt.

Hann fæddist í borginni Pune á Indlandi árið 1959 og gekk til liðs við Diageo árið 1997 þegar fyrirtækið var stofnað. Á meðan hann starfaði sem forstjóri átti hann stóran þátt í að auka sölur á tekílavörumerkjum eins og Casamigos og Don Julio.

Ivan Menezes lætur eftir sig konu og tvö börn.