Fabrizio Freda, forstjóri snyrtivörufyrirtækisins Estée Lauder, mun stíga til hliðar á næsta ári en Freda hefur stýrt fyrirtækinu í rúm fimmtán ár. Ákvörðun hans kemur samhliða rýrnandi sölu og deilum við fjölskyldu stofnenda fyrirtækisins.

Samkvæmt WSJ hefur Estée Lauder ekki enn greint frá arftaka en segir að stjórnarformenn fyrirtækisins séu þegar að teikna upp áætlun og muni taka umsækjendur til skoðunar.

Estée Lauder segist búast við 5% tekjuminnkun á þessum ársfjórðungi en sala hefur farið minnkandi, að hluta til vegna versnandi efnahagsaðstæðna í Kína sem var stór markaður fyrir fyrirtækið.

Freda gekk til liðs við fyrirtækið árið 2008 sem forseti þess og tók við ári seinna af William Lauder sem forstjóri. William sat áfram sem stjórnarformaður en hann hafði tekið við af föður sínum, Leonard Lauder, sem rak fyrirtækið í áratugi.

Estée Lauder stækkaði verulega undir leiðsögn Freda og keypti hann fjölmörg vörumerki eins og Tom Ford, Le Labo og Deciem. Eitt af fyrstu markmiðum hans var að meira en 60% af sölu fyrirtækisins kæmi frá mörkuðum utan Bandaríkjanna.