Patrick Delaney, forstjóri Foxtel, hefur beðist afsökunar eftir að mynd birtist sem sýndi hann gefa frá sér nasistakveðju. News Corp á meirihluta í afþreyingarstöðinni Foxtel sem sýnir þætti, kvikmyndir og íþróttir í Ástralíu.
Með athæfinu segir Delaney að hann hafi í raun verið að sýna hvað það væri sem sumir aðdáendur knattspyrnufélags Vestur-Sydney voru að gera þegar myndin var tekin fyrir rúmum áratug síðan.
„Það var rangt af mér að sýna þessa kveðju og það skiptir engu máli í hvaða samhengi það var,“ sagði forstjórinn í tölvupósti til starfsmanna.
Atvikið átti sér rætur að rekja til heimsóknar hans á leikvang Western Sydney Wanderers á leiktímabilinu 2014-2015 á meðan hann var forstjóri Fox Sports. Þar var hann að líkja eftir kveðjum sem hann sá áhorfendur gefa frá sér.
Myndin sem tekin var af honum var birt í ástralska tímaritinu Crikey og segir hann að hún endurspegli ekki gildi hans, skoðanir, né fjölskyldutengsl.