Harley Davidson segist vera að leita að nýjum forstjóra eftir að núverandi forstjóri, Jochen Zeits, tilkynnti í dag að hann muni hætta eftir að hafa stýrt mótorhjólaframleiðandanum í fimm ár.

Samkvæmt WSJ verður Zeits, sem tók við stöðunni árið 2020 eftir margra ára stjórnarformennsku, þó áfram forstjóri þar til Harley Davidson nær að finna sér nýjan forstjóra.

Á forstjóraferli sínum náði Zeits að auka hagnað fyrirtækisins en Harley Davidson hefur þó undanfarin misseri glímt við minnkandi sölu. Fyrirtækið seldi til að mynda 151 þúsund mótorhjól á heimsvísu á síðasta ári, eða rúmlega helmingi færri en árið 2008.

Sala þess innan Evrópusambandsins gæti þá dregist saman enn meira í ljósi nýjustu innflutningstolla.

Margir söluaðilar Harley Davidsons hafa áður fyrr gagnrýnt Zeitz fyrir skilningsleysi á vörumerkjamenningu Harley. Hann ólst upp í Þýskalandi og varð frægur fyrir íþróttafatafyrirtækið Puma en sumir töldu hann tengjast viðskiptavinum Harley illa.