Pat Gelsinger, forstjóri Intel, hefur látið af störfum rúmlega fjórum árum eftir að hafa tekið við stjórn fyrirtækisins. Gelsinger tilkynnti um uppsögn sína í gær samkvæmt fréttaflutningi Reuters og hækkuðu hlutabréf fyrirtækisins um tæp 5% í kjölfarið.

Intel var á leið með að ljúka fjögurra ára áætlun sem hafði það markmið að endurheimta forystu þess á markaði í framleiðslu tölvukubba en fyrirtækið hefur verið í harðri samkeppni við Nvidia.

Fráfarandi forstjórinn fullvissaði bæði fjárfesta og bandarísk yfirvöld, sem eru að niðurgreiða áætlun Intel, um að áætlanir myndu halda áfram á réttri leið. Niðurstaða mun þó ekki liggja fyrir fyrr en á næsta ári en þá stefnir fyrirtækið að því að koma fartölvukubbaframleiðslu aftur í eigin verksmiðjur.

„Þó svo að við höfum náð umtalsverðum árangri í að endurheimta samkeppnishæfni okkar í framleiðslu og byggt upp getu til að vera heimsklassa fyrirtæki, þá vitum við að það er meira að gera hjá fyrirtækinu og við erum staðráðin í að endurheimta traust fjárfesta,“ segir Frank Yeary, stjórnarformaður Intel.