Lars Fruergaard Jørgensen, forstjóri danska lyfjafyrirtækisins Novo Nordisk, hefur ákveðið að láta af störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í dag, en Børsen greinir frá.
Ákvörðunin er sögð tekin í kjölfar krefjandi markaðsaðstæðna og lækkunar á hlutabréfaverði félagsins frá miðju ári 2024.
Í tilkynningunni segir að Fruergaard gegni áfram embætti um stundarsakir til að tryggja hnökralausa yfirfærslu til nýs forstjóra.
Að baki ákvörðuninni liggur meðal annars samráð milli stjórnar Novo Nordisk og stjórnar Novo Nordisk-stofnunarinnar, sem er stærsti hluthafi félagsins.
Þar segir að unnið hafi verið að mati á því hvort tími væri kominn til að hraða stjórnarskiptum með hagsmuni félagsins og hluthafa að leiðarljósi.
„Með hliðsjón af nýlegum áskorunum á markaði, lækkun hlutabréfaverðs hefur stjórn félagsins og Lars Fruergaard Jørgensen komist að sameiginlegri niðurstöðu um að hefja forstjóraskipti,“ segir í tilkynningunni.
Markaðsviðbrögð við tíðindunum voru blendin. Hlutabréf Novo Nordisk hækkuðu um 3% áður en fréttin var opinberuð, en lækkuðu síðan í um 0,5% eftir tilkynninguna.
Lækkunina má túlka sem viðbragð við óvissu um hver taki við stjórnartaumunum, en jafnframt vonir um nýja stefnumörkun til lengri tíma litið.
Jørgensen tók við sem forstjóri Novo Nordisk árið 2017 og hefur stýrt félaginu á tímabili mikils vaxtar.
Undir hans stjórn varð fyrirtækið leiðandi á heimsvísu í þróun og sölu á lyfjum við sykursýki og offitu, meðal annars með lyfjum á borð við Ozempic og Wegovy.
Á síðustu mánuðum hefur félagið þó þurft að bregðast við aukinni samkeppni, þrýstingi á verðlagningu og óvissu á reglusetningarmörkuðum.
Ekki hefur verið tilkynnt hver muni taka við starfi forstjóra, en að sögn félagsins er leit að eftirmanni þegar hafin.