Orkuveita Reykjavíkur (OR) skilaði 230 milljóna króna tapi á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 2,1 milljarðs króna hagnað á sama tíma í fyrra. Breytinguna má einkum rekja til hærri vaxtagjalda. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, gerir stýrivaxtahækkanir Seðlabankans að umfjöllunarefni í uppgjörstilkynningu.

Á sama tíma og stjórnvöld hvetja okkur til fjárfestinga áttfaldar annar armur ríkisvaldsins stýrivexti í landinu á innan við tveimur árum. Háir vextir eiga, að öðru jöfnu, að hvetja okkur til að slá á frest verkum sem ekki eru brýn,“ segir Bjarni.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti bankans um 0,25 prósentur í síðustu viku. Um var að ræða tíundu vaxtahækkun Seðlabankans í röð en stýrivextir hafa hækkað úr 0,75% í 6,0% frá því í maí 2021.

Orkuveitan kynnti í byrjun október fjárhagsáætlun fyrir árin 2023-2027 þar sem fram kemur að félagið ætli að sækja 50 milljarða króna í nýtt hlutafé inn í dótturfélögin Ljósleiðarann og Carbfix. Ný lántaka verði um 80 milljarðar króna en á sama tíma verði greidd niður lán um 86 milljarða.

„Nýleg fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árin 2023-2027 endurspeglar mikla þátttöku fyrirtækjanna í samstæðunni í samfélagslegum verkefnum næstu ára. Þar má nefna fjárfestingu vegna átaks ríkis og sveitarfélaga í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, borgarlínuverkefni sveitarfélaga og ríkis auk annarra orkuskipta,“ segir Bjarni í uppgjörstilkynningu OR.

„Það eru því krefjandi tímar í starfseminni en vonandi að ytri aðstæður muni ekki hefta þau umbótaverkefni sem við tökum þátt í.“

Vaxtagjöld Orkuveitunnar á þriðja ársfjórðungi meira en tvöfölduðust á milli ára og námu 3,9 milljörðum króna. Skuldir OR námu 205 milljörðum króna í lok september en þar af voru vaxtaberandi langtímaskuldir 153 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var 51,9%.