Alan Joyce, forstjóri ástralska flugfélagsins Qantas, mun yfirgefa fyrirtækið tveimur mánuðum fyrr en áætlað var í ljósi vaxandi gagnrýni um stjórnarhætti hans.
Upprunalega var áætlað að Joyce myndi hætta í nóvember en hann hefur sinnt stöðu forstjóra hjá flugfélaginu í 15 ár. Þess í stað mun hann hætta störfum undir eins.
Qantas hefur undanfarið glímt við marga erfiðleika og ekki síst reiði viðskiptavina fyrir dýr flugfargjöld, fjöldatafir, afbókanir og slæma meðferð á starfsfólki. Á sama tíma hefur flugfélagið skilað inn methagnaði.
„Ég fer út vitandi að fyrirtækið er í grundvallaratriðum sterkt og eigi sér bjarta framtíð“
Mikil hneyksli var til að mynda þegar upp komst að viku eftir að Qantas hafði tilkynnt um 2,5 milljarða dala hagnað komst ástralska neytendaeftirlitið að því að flugfélagið hafði selt þúsundir flugmiða í áætlunarflug sem löngu var búið að aflýsa.
Málið var tilkynnt síðastliðinn fimmtudag og er nú verið að kæra flugfélagið. Qantas á einnig yfir höfði sér lögsókn fyrir að hafa ólöglega ráðið erlent vinnuafl í öðrum löndum á meðan á heimsfaraldrinum stóð og fyrir ósveigjanlegt fluglánskerfi.
„Það hafa verið margar hæðir og lægðir og það er greinilegt að það er margt sem á eftir að gera, sérstaklega þegar kemur að því að tryggja traust viðskiptavina. En ég fer út vitandi að fyrirtækið er í grundvallaratriðum sterkt og eigi sér bjarta framtíð,“ segir Joyce.