Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, beinir m.a. sjónum að efnahagsreikningi ríkisins og möguleikum til eignasölu í bréfi til hluthafa Stoða. Fyrir liggi að ríkið eigi eignir fyrir á annað þúsund milljarða sem hægt væri að selja og nýta söluandvirðið til að greiða upp skuldir. Íslandsbanki sé þar nærtækt dæmi en fyrir liggur ákvörðun um sölu á 42,5% eignarhlut ríkisins í bankanum. Jón telur Landsbankann eiga að vera næstan í röðinni en einhverra hluta vegna séu skiptar skoðanir um nauðsyn þess að ríkið eigi eignarhlut í bankanum.
„Bankinn starfar á samkeppnismarkaði og því eru engin rök fyrir eignarhaldi ríkisins. Einhverjum virðist þó líða betur með að ríkið haldi eftir að minnsta kosti þriðjungshlut sem væri þó skárri staða en nú er. Einnig er rétt að benda á að ef ekki næst samstaða um sölu ríkisins á Landsbankanum mætti með auðveldum hætti losa að lágmarki 50 milljarða króna með arðgreiðslu frá bankanum ef blýhúðun á íslenskum fjármálamarkaði væri afnumin. Að lokum er rétt að nefna það sem enginn vill tala um en það er Landsvirkjun. Það væri til mikilla hagsbóta ef Landsvirkjun yrði skráð á hlutabréfamarkað og ríkið seldi minnihluta í fyrirtækinu. Með þessum skrifum verð ég sjálfsagt sakaður um að taka undir þau sjónarmið sem Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands viðruðu í tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar, það truflar mig lítið enda er ég sammála þeim í meginatriðum.“
Það sem hafi aftur á móti vakið furðu séu sjónarmið ýmissa málsmetandi manna að engin rök séu fyrir því að ríkið selji til að mynda eignarhlut sinn í Landsbankanum enda séu arðgreiðslur háar og ríkið geti fjármagnað sig með lágum verðtryggðum vöxtum. Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, viðraði til að mynda slíka afstöðu nýverið í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Þetta er vægt til orða tekið stórfurðuleg afstaða en þarna er enginn greinarmunur gerður á áhættulausum vöxtum og svo þeirri ávöxtunarkröfu sem gerð er til fjárfestinga í hlutafé fyrirtækja og litið svo á að eignarhald á bönkum sé áhættulaust – sagan hefur nú sýnt annað. Með sömu rökum ætti ríkið að eiga öll fyrirtæki í landinu enda enginn aðili sem getur fjármagnað sig jafn ódýrt – það sjá það vonandi allir að þessi röksemdafærsla gengur engan veginn upp,“ skrifar Jón.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.