Brian Thompson, forstjóri UnitedHealth, var skotinn til bana í dag fyrir utan hótel í New York. Samkvæmt WSJ var hann skotinn í brjóstið og í fótinn skömmu fyrir árlegan fjárfestafund.

Lögreglan í New York leitar enn að hinum grunaða en segist ekki telja að almenningi stafi ógn af manninum. Lögreglan veit heldur ekki hver tildrög árásarinnar voru.

UnitedHealth, sem er með höfuðstöðvar í Minnesota, hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla í tengslum við málið.

Thompson hafði verið forstjóri UnitedHealth, stærsta sjúkratryggingafélags Bandaríkjanna, síðan 2021. Hann gekk til liðs við fyrirtækið árið 2004 og vann að samrunum og yfirtökum á starfsferli sínum.