Chris Vogelzang, forstjóri Danske bank, sagði af sér í dag eftir að hann var bendlaður við peningaþvættisrannsókn hollenskra eftirlitsaðila á bankanum ABN Amro Bank NV. Greint var frá því í dag að ABN hafi samþykkt að greiða 480 milljónir evra í sátt við hollenska saksóknara.

Vogelzang starfaði hjá ABN Amro sem yfirmaður viðskiptabanka- og einkabankaþjónustu í átta ár áður en hann lét af stöfum árið 2017. Hollenskir fjölmiðlar sögðu á sínum tíma að ABN hefði horft til hans sem kandídat til að verða forstjóri en hætt var við þau áform þar sem hollenska ríkisstjórnin, sem á meirihluta í ABN, vildi einhvern með „félagslegt loftnet“ (social antennae).

„Ég er er undrandi á ákvörðun hollenskra stjórnvalda,“ sagði Vogelzang í tilkynningu. „Ég yfirgaf ABN Amro fyrir meira en fjórum árum og er sannfærður að ég hafi sinnt stjórnarskyldum mínum með heiðarleika og eldmóði. Staða mín sem grunaður einstaklingur gefur ekki til kynna að ég verð kærður.“

Sjá einnig: Danske Bank sakaður um peningaþvætti

Danski bankinn er sjálfur hluti af nokkrum peningaþvættismálum í bæði Bandaríkjunum og Evrópu sem hefur leitt til þess að nokkrir háttsettir stjórnendur hafa vikið frá störfum á síðastliðnum árum. Vogelzang var fengin í stjórn bankans árið 2019 til að hjálpa bankanum í umbætum og endurreisa ímynd bankans sem löghlýðin og gagnsæ stofnun, að því er segir í frétt Bloomberg .

Í aðskildri tilkynningu frá skrifstofu ríkissaksóknara í Hollandi var ABN sakað um að brjóta peningaþvættislög í nokkur ár. Þar kom fram að hún væri að hefja glæparannsókn á þremur einstaklingum, sem voru ekki tilgreindir með nafni.

Hollendingurinn Ralph Hamers, forstjóri UBS Group AG, stendur einnig frammi fyrir löngu dómssmáli vegna hlutverki hans í peningaþvættismáli á tíma sínum sem forstjóri ING Groep NV.