Alexander Lacik, forstjóri danska skartgriparisans Pandora, hefur ákveðið að flytja frá Danmörku til Sviss.
Þetta kemur fram í Kauphallartilkynningu frá Pandora en Børsen greinir frá.
„Alexander og fjölskylda hans hafa ákveðið að flytja til Sviss næsta sumar en flutningur hans hefur engin áhrif á stöðu hans sem forstjóri Pandora. Hann mun enn vinna á skrifstofum samstæðunnar í Kaupmannahöfn og ferðast á milli Danmerkur og Sviss eftir þörfum,“ segir í tilkynningunni.
Samkvæmt Børsen hefur Lacik notið skattafsláttar í Danmörku þar sem hann er Svíi en Danir veita efnuðum útlendingum ákveðna skattaafslætti um tíma ef þeir ákveða að starfa og búa í Danmörku.
Skattaafsláttur Lacik rennur út um mitt næsta ár. Hátekjuskattur í Danmörku er um 55%.
Tekjuskattur í Sviss er 11,5% en útsvarsgreiðslur eru mismunandi eftir kantónum. Heildargreiðslur hátekjufólks fara þó aldrei yfir 40% af tekjum.
Þá er enginn erfðafjárskattur í Sviss né eru gjafir til fjölskyldumeðlima skattskyldar en Danir taka allt að 52% skatt af skattskyldum gjöfum.
Lacik tók við sem forstjóri Pandora árið 2019 en gengi félagsins hefur hækkað um 270% síðastliðin fimm ár og farið úr 307,5 dönskum krónum í 1.137,5 danskar krónur.
Annar ársfjórðungur Pandora var einn sá besti í sögu félagsins en tekjur félagsins jukust um 15% á milli ára og námu tæplega 6,8 milljörðum danskra króna eða um 139 milljörðum íslenskra króna.
Pandora, sem rekur um 2.695 skartgripaverslanir víða um heim, færði afkomuspána upp um í byrjun ágúst og býst félagið við um 9 til 12% vexti á árinu.
EBIT afkoma samstæðunnar á öðrum fjórðungi nam 1,3 milljörðum danskra króna sem samvarar um 26,5 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.