Forstöðumaður og sjóðstjórar framtakssjóða Stefnis, dótturfélags Arion banka, hafa allir sagt upp störfum. Jón Finnbogason, sem tók við sem framkvæmdastjóri Stefnis síðastliðið vor, staðfestir þetta í samtali við Innherja.

Um er að ræða þá Arnar Ragnarsson, sem gegndi stöðu forstöðumanns sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni, og sjóðstjórarnir Heiðar Ingi Ólafsson og Ari Ólafsson. Þeir munu starfa innan Stefnis fram í næsta mánuð og vera félaginu innan handar þar til búið er að finna eftirmenn þeira.

Í frétt Innherja segir að brotthvarf þeirra megi rekja til þess að hugmyndir um að koma á fót nýju sjálfstæðu félagi sem myndi annast rekstur sérhæfðu sjóðanna, og yrði að hluta í eigu starfsmannanna, fengu ekki brautargengi hjá lífeyrissjóðum.

Framtakssjóðir Stefnis, sem ganga undir heitinu SÍA, stýra tugi milljarða króna eignum og eru íslenskir lífeyrissjóðir stærstu hluthafar þeirra.

Jón Óttar Birgisson, varaformaður stjórnar Stefnis, mun koma tímabundið inn sem ráðgjafi í málefnum sjóðanna og samhliða þeim störfum segja sig úr stjórn félagsins. Jón Óttar er framkvæmdastjóri Stöplar Advisory en hann hefur áður stýrt fyrirtækjaráðgjöf MP banka og Saga Capital.

Þá mun Eiríkur Ársælsson, sem starfaði um tíma í sérhæfðum hlutabréfum hjá framtakssjóðunum, snúa sér aftur að verkefnum fyrir sjóðina ásamt Bjarna Ármanni Atlasyni, sem hefur verið sjóðstjóri skráðra verðbréfa hjá Stefni.