Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar fer hún um víðan völl og ræðir m.a. um fyrirferð hins opinbera á raforkumarkaði.

Þótt flestir tengi N1 við smásölu á eldsneyti spannar starfsemi félagsins mun víðara svið. Þar á meðal er smásala á raforku til heimila og fyrirtækja, auk þess sem félagið rekur hleðslustöðvar fyrir rafbíla við einstaka þjónustustöðvar sínar um land allt. Báðir markaðir eru virkir samkeppnismarkaðir sem eiga það þó sameiginlegt að opinber fyrirtæki setja svip sinn á samkeppnisstöðuna.

„Af níu félögum sem selja raforku hér á landi í smásölu til heimila og fyrirtækja eru fjögur í opinberri eigu; Orkusalan, ON, Orkubú Vestfjarða og Fallorka, sem er í eigu sveitarfélaga við Eyjafjörð og Þingeyjarsveit,“ útskýrir Ásta. „Áður fyrr voru ýmis ríkisfyrirtæki starfandi á mörkuðum hér á landi sem okkur þætti fjarstæðukennt að ríkið stígi inn á í dag. Má þar nefna Ferðaskrifstofu ríkisins og Viðtækjaverslun ríkisins sem væri þá í samkeppni við t.d. Elko. Það má því í dag setja spurningamerki við að hið opinbera kjósi að vera inni á smásölumarkaði raforku sem og í rekstri hleðslustöðva fyrir rafbíla í samkeppni við einkafyrirtæki, sem eru fullfær um að veita þessa þjónustu,“ segir hún og bætir við að sér sýnist næg verkefni vera fyrir opinbera aðila í öflun og dreifingu raforku. Þar sé innviðaskuld sem ætti að vera í forgangi.

Ásta nefnir jafnframt, meira til gamans, að umræða hafi skapast innan veggja N1 um að hleðslustöðvar fyrir rafbíla séu flokkaðar sem heimilistæki. „Varla ætla opinberir aðilar að fara að útvíkka þann flokk og hefja sölu á þvottavélum, þurrkurum, eldavélum eða öðrum heimilistækjum?“

Ásta kallar eftir því að ríki og sveitarfélög dragi sig út úr fyrrgreindum rekstri. „Árið 2018 benti þáverandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, á fundi Landsvirkjunar á að hið opinbera væri „yfir og allt um kring á raforkumarkaði“. Sjö árum síðar hefur staðan lítið breyst. Vissulega stendur til að Elma, viðskiptavettvangur með raforku, hefji brátt starfsemi, auk þess sem Vonarskarð hefur þegar sett á fót slíkan markað. Það er því komin ákveðin verðmyndun á þessum markaði, en eini aðilinn sem kemur með raunverulegt magn af orku að borðinu er Landsvirkjun. Þarna er kjörið tækifæri fyrir raforkuframleiðendur í opinberri eigu að bjóða sína orku, í mun meira mæli, til sölu á markaðsverði í stað þess að selja hana sjálfkrafa áfram til tengdra sölufyrirtækja,“ segir hún og beinir næst sjónum að því hve skökk samkeppnisstaðan á þessum markaði er.

„Við erum í harðri samkeppni við hið opinbera sem er ekki aðeins að selja raforku beint til neytenda heldur einnig að framleiða hana. Opinberu fyrirtækin eru því í raun beggja vegna borðsins; selja sjálfum sér raforku sem er svo endurseld til neytenda, í samkeppni við einkaaðila. Það blasir við hve óheppilegt fyrirkomulag þetta er, fyrir utan freistnivandann í því að opinberar tekjur úr öðrum hluta rekstrarins séu nýttar í samkeppnisreksturinn. Við sjáum a.m.k. verðdæmi í vöru- og þjónustuframboði þeirra sem ættu einfaldlega ekki að geta gengið upp.“

Yfir höfuð sé það ekki til heilla að hið opinbera sé í fyrirtækjarekstri á samkeppnismarkaði, sem einkafyrirtæki eru fullfær um að sinna. „Við sjáum t.d. að á áfengismarkaði er hægt og rólega að fjara undan rekstrargrundvelli ÁTVR. Það er barn síns tíma að vera með fyrirtæki í opinberri eigu í samkeppnisrekstri.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.