Tölvuleikurinn Fortnite er nú aftur fáanlegur í appverslun Apple í Bandaríkjunum eftir að hafa verið fjarlægður úr versluninni fyrir næstum fimm árum síðan. Á vef BBC segir að leikurinn hafi fyrst verið tekinn úr umferð fyrir að hafa brotið gegn reglum Apple.
Fortnite hvarf úr App Store árið 2020 fyrir að hafa sett upp eigið greiðslukerfi sem gerði það að verkum að smáforritið komst undan 30% greiðsluþóknun sem Apple rukkar.
Ákvörðunin leiddi til áralangrar lagalegrar baráttu sem höfðuð var af Epic Games, framleiðanda Fortnite, sem sagði gjaldið vera ósanngjarnt og sakaði Apple um einokun á appverslun sinni.
Apple hefur ekki svarað beiðnum fjölmiðla en fyrirtækið hefur ávallt sagt að reglur fyrirtækisins séu til staðar til að vernda öryggi notenda.
„Þetta er stór sigur fyrir Epic Games. Epic hefur náð að opna dyr sem Apple hafði áður skellt á aðra. Iðnaðurinn hefur lengi verið á tánum varðandi eftirlit með kerfinu en nú koma breytingar sem marka jafnvægi. Höfundar og útgefendur munu nú hafa meiri áhrif,“ segir Joos van Dreunen, prófessor í tölvuleikjaviðskiptum við NYU Stern-háskóla.