Guðmundur Björnsson og Fossar markaðir hafa stofnað félagið Glym eignastýringar ehf. en það tók formlega til starfa í upphafi mánaðarins. Fyrrnefndur Guðmundur verður framkvæmdastjóri félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Hið nýja félag verður skráður rekstraraðili sérhæfðra sjóða og mun að mestu leyti leggjast í sérhæfðar fjárfestingar, þá einkum óskráðar skuldabréfa- og lánaafurðir, auk annarra sérvalinna fjárfestinga fyrir fagfjárfesta.
„Ég hlakka mjög til þess að takast á við spennandi uppbyggingu og verkefni á nýjum vettvangi. Þróun ytra umhverfis hefur haft í för með sér umtalsverðar breytingar í útlánastefnu hefðbundinna lánveitenda. Þetta gerir það að verkum að sérhæfðir lánveitendur á borð við lánasjóði eru í einstakri stöðu til að fylla í skarðið, einkum hvað varðar óhefðbundnar fjármögnunarlausnir til minni og meðalstórra fyrirtækja,“ er haft eftir Guðmundi í tilkynningunni.
Áður gegndi Guðmundur starfi forstöðumanns áhættustýringar hjá Kviku eignastýringu, eigna- og sjóðastýringarfélagi Kviku banka. Þar áður gegndi hann starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs og áhættustýringar GAMMA Capital Management.