Fossar markaðir hafa fengið starfsleyfi sem fjárfestingarbanki frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og heita nú Fossar fjárfestingarbanki, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.
„Um er að ræða afskaplega ánægjulegan áfanga í sögu Fossa sem felur í sér fjölgun tækifæra til að þjónusta viðskiptavini okkar og jafnframt aukin umsvif á fjármálamarkaði,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka.
Fossar voru stofnaðir árið 2015 og þjónusta innlenda og erlenda fjárfesta á sviði markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og eignastýringar.
„Með nýju starfsleyfi getum við boðið viðskiptavinum upp á víðtækari þjónustu en áður meðal annars með auknum heimildum til útlána og aukinni getu til framvirkra viðskipta með verðbréf og gjaldeyri. Þá opnar starfsleyfið á möguleika Fossa til að starfrækja viðskiptavakt með skráða fjármálagerninga, þar á meðal með ríkisskuldabréf. Við leggjum enn fremur mikla áherslu á áframhaldandi uppbyggingu eignastýringar og fjárfestingaráðgjafar þar sem alþjóðlegt vöruframboð okkar er í sérflokki,” segir Haraldur.