Bandaríska fjölmiðlafyrirtækið Fox Corp. hefur tilkynnt að það muni byrja með sína eigin streymisveitu í september. Streymisveitan kallast Fox One og mun bjóða upp á efni frá Fox News, Fox Sports og öðrum afþreyingarþjónustum áður en NFL-tímabilið hefst í haust.
Á vef WSJ segir að hlutabréf Fox Corp. hafi hækkað um 4,8% eftir að Lachlan Murdoch, forstjóri Fox, ræddi um áform fyrirtækisins á fjárfestafundi í dag.
Murdoch gaf ekki upp upplýsingar um verð en sagði að verðlagið myndi ekki grafa undan samningum sem Fox hefur þegar gert við viðeigandi sjónvarps- og gervihnattasjónvarpsstöðvar. Fox mun þá leita eftir samstarfi við aðra streymisþjónustuaðila og hefur þegar haft samband við þá.
Fox Corp. skilaði 346 milljónum dala í hagnaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 666 milljónir dala á sama tíma í fyrra. Lækkunin er sögð vera vegna hækkandi útgjalda fyrirtækisins.
Rekstrarkostnaður Fox jókst þá um 45% í 2,97 milljarða dala, aðallega vegna hækkandi verðlags á íþróttaáskriftum og framleiðslukostnaðar vegna útsendinga á Ofurskálinni.