Taívanska fyrirtækið Foxconn, sem er þekktast fyrir að setja saman vörur fyrir Apple, er með til skoðunar að að kaupa japanska bílaframleiðandann Nissan. The Wall Street Journal WSJ greinir frá en kaupin myndu styðja við áform Foxconn á rafbílamarkaðnum.

Heimildarmenn WSJ segja að Jun Seki, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Nissan sem stýrir í dag rafbílastarfsemi Foxconn, hafi spilað lykilhlutverk í að móta samskipti fyrirtækjanna tveggja.

Seki er mættur til Frakklands til að funda með stjórnendum franska bílaframleiðandans Renault, samkvæmt heimildum ríkisfjölmiðilsins Central News Agency.

Foxconn á í viðræðum um að kaupa hluta af eignarhlut Renault, stærsta hluthafa Nissan, í japanska bílaframleiðandanum, að því er segir í frétt Reuters.

Áhugi Foxconn fylgir í kjölfar þess að greint var frá því að Nissan og Honda séu farin að skoða samrunamöguleika eða annars konar samstarf til framtíðar. Bílaframleiðendurnir segja þó að engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin.

Foxconn, formlega þekkt sem Hon Hai Precision Industry, hefur verið að reyna að koma sér inn á rafbílamarkað en fyrirtækið býr yfir mikilli tæknireynslu.