Kísilmálmverksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga hefur undanfarin ár beitt nýstárlegum aðferðum til að nýta betur aukaafurðir sem falla til við framleiðsluna. Um er að ræða fullkomlega nýtanleg efni sem í upphafi eru of fíngerð til að hægt sé að endurnýta þau í framleiðsluna án tæknilegra vandræða. Lausnin felst í því að beita svokallaðri „kögglun“.

Sunna Ólafsdóttir Wallevik, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum ráðgjafa- og rannsóknarfyrirtækisins Gerosion, hefur starfað við þetta þróunarverkefni frá upphafi. Kögglunin felur í sér jákvæð umhverfisáhrif og hefur einnig góð áhrif fjárhagslega þar sem nýting eykst til muna. Efni sem áður höfðu lítið sem ekkert notagildi eru nú nýtt í hráefnaköggla sem búnir eru til í samstarfi við Steypustöðina, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Gerosion.

Umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur

„Þetta verkefni hófst af fullum krafti árið 2014 þegar Elkem vildi skoða nýjar, umhverfisvænni og hagkvæmari leiðir til að nýta efni sem féllu til við framleiðsluna og finna þeim betri farveg með nýsköpun að leiðarljósi. Ég ásamt dr. Þorsteini Hannessyni, Jóni Viðari Sigurðssyni og fleiri sérfræðingum hjá Elkem, Nýsköpunarmiðstöð og Gerosion hófum samstarfið með því að reyna að finna leiðir til að koma þessum fínefnum yfir í massa og nýta þau þannig sem hráefni í kísilmálmframleiðsluna,“ segir Sunna.

Vandinn við endurnýtingu á duftkenndum efnum fólst upphaflega í því að fínefni sköpuðu hættu á stíflu og efnistöpum í reykskiljum Elkem. Kögglunin var lausn á þeim vanda og var þá þróuð tækni til að mynda litlar einingar eða köggla sem þola meðferðina sem þarf til að koma þeim inn í ljósbogaofn framleiðslunnar. Steypustöðin var fengin til að framleiða þessa köggla og gengu tilraunirnar mjög vel. Í dag framleiðir Steypustöðin um 7.000 tonn árlega af endurnýttu efni fyrir bræðsluofna Elkem sem annars hefði ekki verið hægt að nýta.

„Það felst í þessu bæði umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur, það er óþarfi að henda einhverju sem er tilvalið hráefni og lækkar framleiðslukostnað í leiðinni,“ segir Sunna. Samhliða þessu verkefni hafa Sunna og samstarfsfélagar hennar hjá Gerosion unnið að þróun á umhverfisvænum bindiefnum sem munu auka enn frekar á sjálfbærni og nýnæmi kögglunarlausnarinnar fyrir Elkem.

„Ég og samstarfsfélagar mínir höfum verið að þróa umhverfisvænt sementslaust steinlím í mörg ár og erum við núna á næstunni að fara í tilraunaframleiðslu þar sem við munum nota sementslausa steinlímið sem bindiefni í kögglunina “ segir Sunna.

Nánar er fjallað um málið í Frumkvöðlum , tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .