Nýsjálendingurinn Mark Levick var forstjóri Alvotech frá 2019 til 2023 en á þeim tíma leiddi hann íslenska lyfjatæknihliðstæðufyrirtækið í gegnum fjölmargar breytingar. Hann hjálpaði við að markaðssetja félagið í 17 löndum og var Alvotech á endanum skráð á NASDAQ.

Undir hans leiðsögn stækkaði þróunar- og rannsóknarteymi félagsins töluvert en Mark einbeitti sér sérstaklega að lyfjarannsóknum sem þénuðu yfir milljarð dala fyrir hluthafa.

Fyrr í þessum mánuði var Mark Levick ráðinn formaður nýsköpunarnefndar hjá danska lyfjafyrirtækinu LEO Pharma. Hann mun aðstoða við mótun rannsóknar- og þróunarstefnu hjá fyrirtækinu, sem er sagt vera leiðandi á sínu sviði þegar kemur að húðmeðferðum og húðlækningum.

Norræn útrás

LEO Pharma starfar í meira en 130 löndum og velti félagið um 1,6 milljörðum evra í fyrra. Fyrirtækið segist hafa náð miklum framförum á sviði húðlækninga en nýlega fékk handexemlyf fyrirtækisins degocitinib samþykki.

Mark segir að markmið fyrirtækisins sé að ná sjálfbærum vexti, þá sérstaklega í Bandaríkjunum, með því að flýta fyrir þróun, rannsóknum og viðskiptaþróun.

„Það eru yfir þrjú þúsund húðsjúkdómar sem hafa flestir takmörkuð eða ófullnægjandi meðferðarúrræði. Árangur á þessu sviði í framtíðinni mun ráðast af framförum í ónæmisfræði, lyfjaformfræði og nákvæmum lækningum.“

Sem stjórnarformaður mun Mark aðstoða fyrirtækið við næstu skref í að meta núverandi getu og eignasafn þess ásamt því að tryggja að nýjar meðferðir komist á markað með skilvirkum hætti.

LEO Pharma starfar í meira en 130 löndum og velti félagið um 1,6 milljörðum evra í fyrra.

„Eftir að hafa starfað með eftirlitsaðilum, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, skil ég mun betur þær áskoranir sem felast í lyfjaþróun. Markmið mitt er að hjálpa LEO Pharma að sigla í gegnum þetta margbreytilega haf en á sama tíma viðhalda áherslu á nýsköpun og að hjálpa sjúklingum.

Styrkir lyfjatengsl Íslands og Danmerkur

Mark telur að flutningur hans frá Alvotech yfir í danska lyfjaiðnaðinn endurspegli einnig víðtækari vilja til að efla lyfjasamstarf milli landanna tveggja. Hann segir að norræn lyfjavísindi séu í auknum mæli að breytast í miðstöð nýsköpunar.

Að hans mati býður Ísland upp á mikla lipurð sem gæti reynst mikill styrkur fyrir danska lyfjaiðnaðinn þegar kemur að framleiðslu og markaðssetningu.

„Ísland býður upp á ótrúlegt umhverfi fyrir lyfjatæknivöxt og nú er ég spenntur að leggja mitt af mörkum til að styrkja enn frekar danska lyfjaiðnaðinn. Bæði löndin hafa skuldbundið sig við vísindadrifnar heilbrigðislausnir og ég tel að það sé margt sem við getum lært hvert af öðru.“

LEO Pharma tekur í sama streng og segir að á meðan félagið vinni hörðum höndum að því að þróa næstu kynslóð húðsjúkdómalækninga muni ráðning Marks koma til með að auka alþjóðlega reynslu fyrirtækisins.

„Mark er með feril sem byggist á nýsköpun og auknu aðgengi fyrir sjúklinga. Við tökum framtíðaráhrifum hans fyrir LEO Pharma og þau áhrif sem hann mun hafa á norræna heilbrigðisþjónustu með opnum örmum,“ segir stjórn LEO Pharma.