1. janúar árið 2023 er dagurinn sem við ákváðum að fara af stað með þetta verkefni. Þessi hugmynd hafði blundað í okkur lengi án þess að við gerðum eitthvað í því, eins og er kannski með flestar sprotahugmyndir. En þarna ákváðum við að ýta á „play“ og fórum af stað af fullum krafti,“ segir Páll Edwald, annar stofnenda Dóttir Skyr.

„Í kjölfarið unnum við að skráningu vörumerkisins, heimsóttum verksmiðjur og athuguðum hvar hægt væri að framleiða eftir okkar eigin uppskrift. Þegar við byrjuðum á verkefninu vissum við ekki alveg hvar við áttum að byrja. Það mætti því segja að við vorum að smíða flugvélina á meðan við vorum að fljúga henni,“ bætir Páll við.

Nú, tæpum tveimur árum síðar, er Dóttir Skyr selt í 116 MENY verslunum í Danmörku. Páll segir að líkja megi verslunum MENY við Whole Foods. Báðar matvörukeðjurnar leggi áherslu á hollar og heilnæmar vörur og eru með kjötborð, bakarí og ferskvörur.

Spurðir af hverju Danmörk hafi orðið fyrir valinu segja þeir gömlu góðu Íslendingatenginguna spila stóra rullu. Þá bjó Páll þar í tvö ár er hann var í skiptinámi í lögfræði. „Danmörk er ákveðið annað heimili fyrir Íslendinga. Landið er heillandi og þar er mjög gott úrval verslana,“ bætir Dagur Þór Hilmarsson, annar stofnenda Dóttir Skyr við.

Dóttir Skyr er nú komið í sölu í 116 matvöruverslunum í Danmörku.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Vilja hvetja til heilbrigðs lífsstíls

Skyrið hefur nú verið í sölu í rúmar tvær vikur og segjast þeir ánægðir með góðar viðtökur. Nú þurfi að halda vel á spöðunum og leggja áherslu á markaðssetningu vörunnar. Nú þegar sé fjöldi Íslendinga búsettur í Danmörku sem þekkir skyr og fyrir hvað það stendur. Mikil tækifæri felist í því að ná betur til Dana.

„Danir horfa svolítið á skyr eins og þetta sé einhvers konar matur fyrir vaxtaræktarfólk. En okkar skilaboð með Dóttir Skyr er einfaldlega að hvetja til heilbrigðs lífsstíls, og hentar varan öllum þeim sem vilja lifa slíkum lífsstíl,“ segir Páll.

Spurðir hvað framtíðin ber í skauti sér segjast þeir ætla að taka eitt skref í einu. „Danmörk er æðisleg byrjun og það er gott að vera komnir þangað inn. En það er ekkert leyndarmál að við viljum klárlega að fleiri lönd fái Dóttir Skyr í sínar verslanir,“ segir Dagur.

„Við segjum kannski ekki heimsyfirráð eða dauði, en auðvitað viljum við að það gangi vel og við getum ýtt undir heilbrigðan lífsstíl hjá sem flestum,“ bætir Páll við og hlær.

Nánar er fjallað um Dóttir Skyr í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni.