Norðmaðurinn Bjørn Gulden, sem tilkynnti á dögunum að hann væri að hætta sem forstjóri Puma mun taka við forstjórastöðunni hjá Adidas um áramótin. Gulden hefur starfað hjá Puma í níu ár og náð að snúa rekstri fyrirtækisins við á þeim tíma.

Ein vinsælasta vara Adidas undanfarin ár hafa verið Yeezy strigaskórnir, sem fyrirtækið hannaði í samstarfi við Kanye West. Óvissa ríkir nú um framtíð Yeezy eftir að Adidas sleit samstarfinu við West vegna andgyðinglegra um­mæla hans.

Þess má geta að Gulden var atvinnumaður í knattspyrnu á sínum tíma og lék meðal annars með Nürnberg eins og Rúrik Gíslason og auðvitað tvíburabræðurnir af Skaganum þeir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir.