Þegar Finnbogi Helgi Helgason, bóndi á Sólvöllum í Mosfellsbæ, lést níutíu og tveggja ára gamall árið 1993 erfðu dætur hans þrjár til jafns jörðina sem fylgdi sveitinni sem þær höfðu alist upp í.
Systurnar þrjár, Ingunn, Soffía og Aðalheiður, létust allar með skömmu millibili á árunum 2019 til 2022. Í kjölfar andláts Soffíu Petru, sem var ógift og barnlaus, fannst erfðaskrá sem var dagsett 27. apríl 2017 en fjölskyldumeðlimir drógu erfðaskrána verulega í efa og hefur nú bæði héraðsdómur og Landsréttur ógilt hana að öllu leyti.
Soffía átti enga skylduerfingja er hún lést en lögerfingjar hennar voru systur hennar, börn þeirra og hálfbróðir þeirra systra.
Sem fyrr segir erfði hún ásamt systrum sínum þriðjungshlut í jörð föður síns en með jörðinni fylgir einnig hlutdeild í landi þar sem nokkuð stórar landareignir eru skilgreindar sem byggingarland að hluta.
Heildarstærð landsins samkvæmt fasteignaskrá er 120 hektarar en að meðtalinni hlutdeild jarðarinnar í öðru landi mun eignin nema um 144 hekturum.
Í dómsmáli um erfðaskrá Soffíu er lagt fram verðmat fasteignasala sem metur hugsanlegt söluverð jarðarinnar á 8,7 milljarða í árslok 2023. Það má þó ætla að virði landareignarinnar geti verið mun meiri þegar farið verður af stað í uppbyggingu á landinu.
Árið 2006 var leitað til þeirra systra um möguleg kaup á jörðinni í því að skyni að reisa þar íbúðabyggð. Systurnar þrjár fengu son Ingunnar, Sigurjón, til að koma fram fyrir þeirra hönd í samskiptum við væntanlega kaupendur.
Sigurjón leitaði til ráðgjafa og sérfræðinga og var verðmats aflað á jörðinni sem var metinn á tvo milljarða í mars 2006.
Árið 2007 var síðan gengið frá sölu á 19 hektara byggingarlandi til verktakafyrirtækisins fyrir rúman milljarð. Um er að ræða um 13% af landi fjölskyldunnar.
Í kjölfar bankahrunsins 2008 gengu fyrrgreind viðskipti með jörðina til baka en vegna vanefnda kaupenda á 220 milljón króna skuld í erlendri mynt sem var tryggð með veði í allri jörðinni. Eigendur jarðarinnar höfðu undirgengist með undirritun tryggingarbréfs í tengslum við skilyrta innborgun til þeirra á hluta kaupverðs fyrir jörðina, um 65.000.000 króna til hverrar af systrunum þremur.
Við gjaldþrot verktakafyrirtækisins stóð þetta veð eftir á jörðinni og féll á eigendur jarðarinnar að gera upp við kröfuhafa áhvílandi skuldir á henni í þessu sambandi.
Samkvæmt dómi héraðsdóms mun staða jarðarinnar hafa verið óbreytt í meginatriðum næstu árin. Í júní 2016 flutti Soffía Petra á hjúkrunarheimili en hún hafði dvalist á heilbrigðisstofnunum frá miðjum apríl sama ár.
Óumdeilt er í málinu að Sigurjón tók á árinu 2016, í samráði við aðra ættingja Soffíu, að sér að halda utan um fjármál hennar.
Í dóminum er sagt frá fundi seint á árinu 2016 þar sem systurnar þrjár og aðrir fjölskyldumeðlimir funduðu með ráðgjöfum um viðleitni til að ganga frá uppgjöri ofangreindra veðskulda vegna hættu á nauðungaruppboði á jörðinni á grundvelli fyrrnefnds tryggingarbréfs.
Engin gögn eru um fundinn sérstaklega en skömmu síðar mun af hálfu systranna þriggja hafa verið samið um uppgjör fyrrgreindra veðskulda við þáverandi veð- og kröfuhafa sem var Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ).
Samkvæmt framburðum fyrir dómi og öðrum gögnum málsins var samningurinn með þeim hætti að félag Sigurjóns varð skuldari samkvæmt skuldabréfi um peningalán sem tekið var til að standa straum af því sem á vantaði hjá hluta eigenda jarðarinnar til að fjármagna uppgjörið.
Hvað varðar Soffíu þá liggur fyrir í málinu að handbærar eignir hennar á þessum tíma, reiðufé og andvirði fasteignar, hafi nægt til að greiða þriðjungshlut hennar, u.þ.b. 85.000.000 króna, í þessu uppgjöri á áhvílandi skuldum jarðarinnar
Í málsgögnum er að finna minnisblað frá febrúar 2017 sem ber heitið „Álitamál vegna jarðarinnar“ sem hafði verið tekið saman að beiðni „fyrirsvarsmanna eigenda jarðarinnar“ en þar er fjallað um alla þá þætti sem eigendur og fyrirsvarsmenn þeirra þurfi að huga að til að afstýra uppboði á jörðinni, skipuleggja jörðina og selja á almennum markaði þegar hagstæð skilyrði skapist.
Í minnisblaðinu er fjallað stuttlega um fjárhagslega stöðu eigenda og kemur þar fram um Soffíu að hún eigi handbært fé og fasteign sem senn fari í sölu sem eigi að duga til að greiða upp hennar þriðjungshlut í skuld við kröfuhafa.
Þar er einnig kafli með yfirskriftinni „Kynslóðaskipti“ þar sem fram kemur í upphafi að eigendur jarðarinnar, systurnar þrjár, séu nokkuð við aldur og rætt hafi verið um hvort ekki væri við hæfi að létta af þeim áhyggjum og óþægindum sem fylgi þeim ráðstöfunum sem nauðsynlegt sé að ráðast í vegna jarðarinnar.
Í beinu framhaldi kemur fram um hverja og eina af systrunum að ein eigi einn lögerfingja, ein eigi engan lögerfingja og ein systirin eigi fjóra lögerfingja. Samkvæmt Héraðsdómi er ljóst að hér er átt við skylduerfingja.
Í minnisblaðinu er einnig fjallað um skipulag eignarhalds jarðarinnar til framtíðar, í aðalatriðum á þann hátt að systurnar selji jörðina til einkahlutafélags sem taki einnig við skuldum þeirra vegna hennar og verði í jafnri eigu þriggja einkahlutafélaga í 100% eigu hverrar af systrunum.
Í dómnum er tekið fram að systurnar þrjár og börn þeirra funduðu með ráðgjöfum s.s. endurskoðendum o.fl. árlega í tengslum við skattframtöl o.fl.
Þessir ráðgjafar fjölskyldunnar sögðu í skýrslutöku í héraðsdómi að Soffía hefði í tvígang á árunum 2015 og 2016 lýst yfir áhuga á að gera erfðaskrá en þeir hefðu talið rétt að lögmaður hennar annaðist slíkt verkefni.
Í apríl 2017 er Soffía kom á árlegan fund með endurskoðanda sínum til að fara yfir drög að skattframtali ítrekaði hún vilja sinn um að gera erfðaskrá og bauðst endurskoðanda hennar verða henni út um lögmann sem gæti aðstoðað.
Báðir fjármálaráðgjafar fjölskyldunnar báru fyrir dómi að Soffía vildi arfleiða Sigurjón og syni hans eignarhlut sinn í landinu í Mosfellssveit.
Þann 27. apríl undirritaði hún síðan tvær samhljóða erfðaskrár, vottaðar af tveimur arfsleiðsluvottum, en þá síðari í beinu framhaldi hjá sýslumanninum, vottaða af fulltrúa hans sem lögbókanda.
Undirritaði hún erfðaskrána í viðurvist fjögurra vitna en Sigurjón er sagður í dóminum hafa ekið móðursystur sinni á fundinn og boðist til að aka henni og öðrum til sýslumanns til að undirrita erfðaskrá þar.
Sem fyrr segir lést Soffía árið 2019 og í kjölfar andláts hennar fannst umrædd erfðaskrá en þar segir að Sigurjón og tveir synir hans skuli erfa 1/3 hluta hver eignarhluti hennar í jörðum fjölskyldunnar.
Þá skulu þeir einnig erfa til jafns eignarhluti hennar í einkahlutafélaginu F fasteignafélagi ásamt öllum kröfum sem hún kann að eiga á hendur félagsins.
Fengu þeir einnig ótilgreinda íbúð hennar og allt handbært fé á bankareikningum.
Þá fékk ótilgreindur fjölskyldumeðlimur, sem er sagður í dómnum hafa staðið henni næst, fimm milljónir króna í reiðufé.
Ágreiningur varð meðal erfingja í dánarbúi hennar um skipti þess og fyrst og fremst um gildi erfðaskrár hennar.
Í gögnum málsins er afrit bréfs lögmanns sóknaraðila frá 27. ágúst 2019, til sýslumanns þar sem fram kemur að erfðaskráin 27. apríl 2017 væri vefengd af hálfu systur Soffíu og barna hennar.
Var farið fram á opinber skipti á dánarbúinu sem sætti ekki andmælum og var skipaður skiptastjóri í febrúar 2021.
Fjölskyldan aflaði sér matsgerðar öldrunarlæknis og er heilsufarssaga Soffíu rakin í dómsmálinu en niðurstaða matsgerðarinnar er sú að það var talið ólíklegt að hún hafi getað haft frumkvæði að því að gera erfðaskrá.
„Í samantekt matsgerðar kemur m.a. fram að minnisskerðing J hafi verið á því stigi að kallast heilabilun og samkvæmt lýsingum hafi einkenni heilabilunar einnig verið þau sem koma illa fram á einföldum minnisprófum, svo sem framtaks- og frumkvæðisleysi og skortur á góðu innsæi,” segir í dómi héraðsdóms.
Í dómnum segir að börn hinnar systur Soffíu dragi í efa að erfðaskráin endurspegli raunverulegan vilja hennar „enda hafi aldrei komið til tals að hún hygðist arfleiða varnaraðilann A eða syni hans eina að sínum hlut í jörðinni.”
„Í því sambandi benda sóknaraðilar jafnframt á að gera þurfi hér ríkari kröfur en ella til andlegs heilbrigðis J við undirritun erfðaskrárinnar vegna þeirra miklu verðmæta sem erfðaskráin fjallar um. Útilokað sé að hún hafi gert sér grein fyrir hve mikil verðmæti var um að ræða eða hvað þeir gerningar sem erfðaskráin mælti fyrir um fólu í sér. Í því sambandi verði að horfa til þess að erfðaskráin sé nokkuð flókin að uppbyggingu, sem mæli gegn því að öldruð kona með heilabilun hafi getað tekið afstöðu til hvort þær væru skynsamlegar eða í samræmi við hennar vilja.”
Fjölskyldan byggði á því að Soffíu hafi skort arfleiðsluhæfi og hún hafi misskilið eða haft rangar hugmyndir um þær ráðstafanir sem erfðaskráin mælir fyrir um.
„Sóknaraðilar vísa þar nánar til þess á sama hátt og áður að útilokað megi telja að hún hafi gert sér grein fyrir þeim miklu verðmætum sem erfðaskráin færði varnaraðilunum A og sonum hans. Sóknaraðilar benda hér einnig á að samkvæmt erfðaskránni arfleiði J sóknaraðilann I, sem hafi verið sá fjölskyldumeðlimur sem stóð henni næst, að 5.000.000 króna í reiðufé. Það séu í venjulegum skilningi allmiklir fjármunir. Á hinn bóginn arfleiði hún varnaraðilana A og syni hans að framtíðarbyggingarlandi á [...] sem hafi margfalt meira fjárhagslegt gildi en reiðuféð, a.m.k. til lengri tíma litið. Að mati sóknaraðila sýni þessi samanburður að J hafi ómögulega getað hafa gert sér grein fyrir þeim verðmætum sem erfðaskráin varðar.”
Í dómi héraðsdóms, sem Landsréttur hefur nú staðfest, segir að sjúkragögnum virtum, matsgerð sem og framburði matsmanns fyrir dómi að telja verði nægilega fram komið og sannað í málinu að Soffía hafi við undirritun hinnar umdeildu erfðaskrár 27. apríl 2017 verið haldin andlegum annmarka vegna heilabilunar, sem varað hafi frá árinu 2014 eða a.m.k. frá árinu 2015, á þann nánari hátt sem áður greindi og áðurnefnd gögn og framburður matsmanns greina nánar.
Dómurinn mat matsgerðina vel og ítarlega unna og hafi ekkert komið fram um ágalla hennar en varnaraðilar í málinu leituðust ekki við að hnekkja matsgerð dómkvadda matsmannsins.
Dómurinn tekur sérstaklega fram að ekki kom annað fram í framburðum ættingja og venslafólks Soffíu í málinu en að hún hafi átt ágætt samband við fjölskyldu sína almennt, þ.e. bæði við fólk úr hópi sóknaraðila og varnaraðila, og hefur a.m.k. ekkert komið fram sérstaklega um óvild eða vantraust hennar í garð sóknaraðila eða neikvæðar uppákomur í samskiptum þeirra á milli.
Einnig liggur ekki annað fyrir en að sammæli sé milli framburða aðila og vitna um að einstaklingar tengdir báðum hópum málsaðila hafi sinnt og annast hana síðustu ár hennar og fær það stoð í sjúkragögnum.
„Ef horft er til annarra atriða varðandi efni erfðaskrárinnar, sem og forms og uppbyggingar hennar, liggur fyrir að í henni kemur ekkert fram beint eða óbeint um fjárhagslegt verðmæti [...] landsins en með vísan til fyrri umfjöllunar um áætlað virði þess hefur komið fram í málinu, án þess að því hafi verið sérstaklega andmælt, að sú eign J verði talin hafa verið um 1.500.000.000 króna að verðmæti við gerð erfðaskrárinnar. Þá liggur fyrir að þær 5.000.000 króna sem erfðaskráin mælir fyrir um að falli til sóknaraðilans I, og er eina tiltekna fjárhæðin sem fram kemur í erfðaskránni, eru í reynd hverfandi hluti af heildarverðmæti eigna J. Í því sambandi er vísað aftur til fyrri umfjöllunar um það sem annars liggur fyrir í málinu um samband J við ættingja sína almennt séð sem og þess að ekki hefur verið umdeilt í málinu að I hafi a.m.k. ekki átt minni þátt en aðrir ættingjar og venslafólk J í persónulegri umönnun og aðstoð við hana síðustu ár hennar,” segir í dómi Héraðsdóms.
Sem fyrr segir komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Soffíu hafi skort arfleiðsluhæfi og var því erfðaskráin dæmd ógild og ekki lögð til grundvallar á opinberum skiptum á dánarbúinu.