Þegar Finn­bogi Helgi Helga­son, bóndi á Sól­völlum í Mos­fells­bæ, lést níu­tíu og tveggja ára gamall árið 1993 erfðu dætur hans þrjár til jafns jörðina sem fylgdi sveitinni sem þær höfðu alist upp í.

Systurnar þrjár, Ingunn, Soffía og Aðal­heiður, létust allar með skömmu milli­bili á árunum 2019 til 2022. Í kjöl­far and­láts Soffíu Petru, sem var ó­gift og barn­laus, fannst erfða­skrá sem var dag­sett 27. apríl 2017 en fjölskyldumeðlimir drógu erfða­skrána veru­lega í efa og hefur nú bæði héraðs­dómur og Lands­réttur ó­gilt hana að öllu leyti.

Soffía átti enga skyldu­erfingja er hún lést en lög­erfingjar hennar voru systur hennar, börn þeirra og hálf­bróðir þeirra systra.

Sem fyrr segir erfði hún á­samt systrum sínum þriðjungshlut í jörð föður síns en með jörðinni fylgir einnig hlut­deild í landi þar sem nokkuð stórar landar­eignir eru skil­greindar sem byggingar­land að hluta.

Heildar­stærð landsins sam­kvæmt fast­eigna­skrá er 120 hektarar en að með­talinni hlut­deild jarðarinnar í öðru landi mun eignin nema um 144 hekturum.

Í dóms­máli um erfða­skrá Soffíu er lagt fram verð­mat fast­eigna­sala sem metur hugsan­legt sölu­verð jarðarinnar á 8,7 milljarða í árs­lok 2023. Það má þó ætla að virði landareignarinnar geti verið mun meiri þegar farið verður af stað í uppbyggingu á landinu.

Árið 2006 var leitað til þeirra systra um mögu­leg kaup á jörðinni í því að skyni að reisa þar í­búða­byggð. Systurnar þrjár fengu son Ingunnar, Sigur­jón, til að koma fram fyrir þeirra hönd í sam­skiptum við væntan­lega kaup­endur.

Sigur­jón leitaði til ráð­gjafa og sér­fræðinga og var verð­mats aflað á jörðinni sem var metinn á tvo milljarða í mars 2006.

Árið 2007 var síðan gengið frá sölu á 19 hektara byggingar­landi til verk­taka­fyrir­tækisins fyrir rúman milljarð. Um er að ræða um 13% af landi fjöl­skyldunnar.

Í kjöl­far banka­hrunsins 2008 gengu fyrr­greind við­skipti með jörðina til baka en vegna van­efnda kaup­enda á 220 milljón króna skuld í er­lendri mynt sem var tryggð með veði í allri jörðinni. Eig­endur jarðarinnar höfðu undir­gengist með undir­ritun tryggingar­bréfs í tengslum við skil­yrta inn­borgun til þeirra á hluta kaup­verðs fyrir jörðina, um 65.000.000 króna til hverrar af systrunum þremur.

Við gjald­þrot verk­taka­fyrir­tækisins stóð þetta veð eftir á jörðinni og féll á eig­endur jarðarinnar að gera upp við kröfu­hafa á­hvílandi skuldir á henni í þessu sam­bandi.

Samkvæmt því sem Viðskiptablaðið kemst næst er um að ræða Sólvallalandið í Mosfellsbæ sem sést afmarkað fyrir miðja mynd.
Samkvæmt því sem Viðskiptablaðið kemst næst er um að ræða Sólvallalandið í Mosfellsbæ sem sést afmarkað fyrir miðja mynd.

Sam­kvæmt dómi héraðs­dóms mun staða jarðarinnar hafa verið ó­breytt í megin­at­riðum næstu árin. Í júní 2016 flutti Soffía Petra á hjúkrunar­heimili en hún hafði dvalist á heil­brigðis­stofnunum frá miðjum apríl sama ár.

Ó­um­deilt er í málinu að Sigur­jón tók á árinu 2016, í sam­ráði við aðra ættingja Soffíu, að sér að halda utan um fjár­mál hennar.

Í dóminum er sagt frá fundi seint á árinu 2016 þar sem systurnar þrjár og aðrir fjöl­skyldu­með­limir funduðu með ráð­gjöfum um við­leitni til að ganga frá upp­gjöri ofan­greindra veð­skulda vegna hættu á nauðungar­upp­boði á jörðinni á grund­velli fyrr­nefnds tryggingar­bréfs.

Engin gögn eru um fundinn sér­stak­lega en skömmu síðar mun af hálfu systranna þriggja hafa verið samið um upp­gjör fyrr­greindra veð­skulda við þá­verandi veð- og kröfu­hafa sem var Eigna­safn Seðla­banka Ís­lands (ESÍ).

Sam­kvæmt fram­burðum fyrir dómi og öðrum gögnum málsins var samningurinn með þeim hætti að fé­lag Sigur­jóns varð skuldari sam­kvæmt skulda­bréfi um peninga­lán sem tekið var til að standa straum af því sem á vantaði hjá hluta eig­enda jarðarinnar til að fjár­magna upp­gjörið.

Hvað varðar Soffíu þá liggur fyrir í málinu að hand­bærar eignir hennar á þessum tíma, reiðu­fé og and­virði fast­eignar, hafi nægt til að greiða þriðjungs­hlut hennar, u.þ.b. 85.000.000 króna, í þessu upp­gjöri á á­hvílandi skuldum jarðarinnar

Í máls­gögnum er að finna minnis­blað frá febrúar 2017 sem ber heitið „Á­lita­mál vegna jarðarinnar“ sem hafði verið tekið saman að beiðni „fyrir­svars­manna eig­enda jarðarinnar“ en þar er fjallað um alla þá þætti sem eig­endur og fyrir­svars­menn þeirra þurfi að huga að til að af­stýra upp­boði á jörðinni, skipu­leggja jörðina og selja á al­mennum markaði þegar hag­stæð skil­yrði skapist.

Í minnis­blaðinu er fjallað stutt­lega um fjár­hags­lega stöðu eig­enda og kemur þar fram um Soffíu að hún eigi hand­bært fé og fast­eign sem senn fari í sölu sem eigi að duga til að greiða upp hennar þriðjungs­hlut í skuld við kröfu­hafa.

Þar er einnig kafli með yfir­skriftinni „Kyn­slóða­skipti“ þar sem fram kemur í upp­hafi að eig­endur jarðarinnar, systurnar þrjár, séu nokkuð við aldur og rætt hafi verið um hvort ekki væri við hæfi að létta af þeim á­hyggjum og ó­þægindum sem fylgi þeim ráð­stöfunum sem nauð­syn­legt sé að ráðast í vegna jarðarinnar.

Í beinu fram­haldi kemur fram um hverja og eina af systrunum að ein eigi einn lög­erfingja, ein eigi engan lög­erfingja og ein systirin eigi fjóra lög­erfingja. Sam­kvæmt Héraðs­dómi er ljóst að hér er átt við skyldu­erfingja.

Í minnis­blaðinu er einnig fjallað um skipu­lag eignar­halds jarðarinnar til fram­tíðar, í aðal­at­riðum á þann hátt að systurnar selji jörðina til einka­hluta­fé­lags sem taki einnig við skuldum þeirra vegna hennar og verði í jafnri eigu þriggja einka­hluta­fé­laga í 100% eigu hverrar af systrunum.

Í dómnum er tekið fram að systurnar þrjár og börn þeirra funduðu með ráð­gjöfum s.s. endur­skoð­endum o.fl. ár­lega í tengslum við skatt­fram­töl o.fl.

Þessir ráð­gjafar fjöl­skyldunnar sögðu í skýrslu­töku í héraðs­dómi að Soffía hefði í tví­gang á árunum 2015 og 2016 lýst yfir á­huga á að gera erfða­skrá en þeir hefðu talið rétt að lög­maður hennar annaðist slíkt verk­efni.

Í apríl 2017 er Soffía kom á ár­legan fund með endur­skoðanda sínum til að fara yfir drög að skatt­fram­tali í­trekaði hún vilja sinn um að gera erfða­skrá og bauðst endur­skoðanda hennar verða henni út um lög­mann sem gæti að­stoðað.

Báðir fjár­mála­ráð­gjafar fjöl­skyldunnar báru fyrir dómi að Soffía vildi arf­leiða Sigur­jón og syni hans eignar­hlut sinn í landinu í Mos­fells­sveit.

Þann 27. apríl undir­ritaði hún síðan tvær sam­hljóða erfða­skrár, vottaðar af tveimur arfs­leiðslu­vottum, en þá síðari í beinu fram­haldi hjá sýslu­manninum, vottaða af full­trúa hans sem lög­bókanda.

Undir­ritaði hún erfða­skrána í viður­vist fjögurra vitna en Sigur­jón er sagður í dóminum hafa ekið móður­systur sinni á fundinn og boðist til að aka henni og öðrum til sýslu­manns til að undir­rita erfða­skrá þar.

Sem fyrr segir lést Soffía árið 2019 og í kjöl­far and­láts hennar fannst um­rædd erfða­skrá en þar segir að Sigur­jón og tveir synir hans skuli erfa 1/3 hluta hver eignar­hluti hennar í jörðum fjöl­skyldunnar.

Þá skulu þeir einnig erfa til jafns eignar­hluti hennar í einka­hluta­fé­laginu F fast­eigna­fé­lagi á­samt öllum kröfum sem hún kann að eiga á hendur fé­lagsins.

Fengu þeir einnig ó­til­greinda íbúð hennar og allt hand­bært fé á banka­reikningum.

Þá fékk ó­til­greindur fjöl­skyldu­með­limur, sem er sagður í dómnum hafa staðið henni næst, fimm milljónir króna í reiðu­fé.

Á­greiningur varð meðal erfingja í dánar­búi hennar um skipti þess og fyrst og fremst um gildi erfða­skrár hennar.

Erfðaskrá Soffíu í dómi héraðsdóms Reykjavíkur.
Erfðaskrá Soffíu í dómi héraðsdóms Reykjavíkur.
© Skjáskot (Skjáskot)

Í gögnum málsins er af­rit bréfs lög­manns sóknar­aðila frá 27. ágúst 2019, til sýslu­manns þar sem fram kemur að erfða­skráin 27. apríl 2017 væri vefengd af hálfu systur Soffíu og barna hennar.

Var farið fram á opin­ber skipti á dánar­búinu sem sætti ekki and­mælum og var skipaður skipta­stjóri í febrúar 2021.

Fjöl­skyldan aflaði sér mats­gerðar öldrunar­læknis og er heilsu­fars­saga Soffíu rakin í dómsmálinu en niður­staða matsgerðarinnar er sú að það var talið ó­lík­legt að hún hafi getað haft frum­kvæði að því að gera erfða­skrá.

„Í saman­tekt mats­gerðar kemur m.a. fram að minnis­skerðing J hafi verið á því stigi að kallast heila­bilun og sam­kvæmt lýsingum hafi ein­kenni heila­bilunar einnig verið þau sem koma illa fram á ein­földum minnis­prófum, svo sem fram­taks- og frum­kvæðis­leysi og skortur á góðu inn­sæi,” segir í dómi héraðs­dóms.

Í dómnum segir að börn hinnar systur Soffíu dragi í efa að erfða­skráin endur­spegli raun­veru­legan vilja hennar „enda hafi aldrei komið til tals að hún hygðist arf­leiða varnar­aðilann A eða syni hans eina að sínum hlut í jörðinni.”

„Í því sam­bandi benda sóknar­aðilar jafn­framt á að gera þurfi hér ríkari kröfur en ella til and­legs heil­brigðis J við undir­ritun erfða­skrárinnar vegna þeirra miklu verð­mæta sem erfða­skráin fjallar um. Úti­lokað sé að hún hafi gert sér grein fyrir hve mikil verð­mæti var um að ræða eða hvað þeir gerningar sem erfða­skráin mælti fyrir um fólu í sér. Í því sam­bandi verði að horfa til þess að erfða­skráin sé nokkuð flókin að upp­byggingu, sem mæli gegn því að öldruð kona með heila­bilun hafi getað tekið af­stöðu til hvort þær væru skyn­sam­legar eða í sam­ræmi við hennar vilja.”

Fjöl­skyldan byggði á því að Soffíu hafi skort arf­leiðslu­hæfi og hún hafi mis­skilið eða haft rangar hug­myndir um þær ráð­stafanir sem erfða­skráin mælir fyrir um.

„Sóknar­aðilar vísa þar nánar til þess á sama hátt og áður að úti­lokað megi telja að hún hafi gert sér grein fyrir þeim miklu verð­mætum sem erfða­skráin færði varnar­aðilunum A og sonum hans. Sóknar­aðilar benda hér einnig á að sam­kvæmt erfða­skránni arf­leiði J sóknar­aðilann I, sem hafi verið sá fjöl­skyldu­með­limur sem stóð henni næst, að 5.000.000 króna í reiðu­fé. Það séu í venju­legum skilningi all­miklir fjár­munir. Á hinn bóginn arf­leiði hún varnar­aðilana A og syni hans að fram­tíðar­byggingar­landi á [...] sem hafi marg­falt meira fjár­hags­legt gildi en reiðu­féð, a.m.k. til lengri tíma litið. Að mati sóknar­aðila sýni þessi saman­burður að J hafi ó­mögu­lega getað hafa gert sér grein fyrir þeim verð­mætum sem erfða­skráin varðar.”

Í dómi héraðs­dóms, sem Lands­réttur hefur nú stað­fest, segir að sjúkra­gögnum virtum, mats­gerð sem og fram­burði mats­manns fyrir dómi að telja verði nægi­lega fram komið og sannað í málinu að Soffía hafi við undir­ritun hinnar um­deildu erfða­skrár 27. apríl 2017 verið haldin and­legum ann­marka vegna heila­bilunar, sem varað hafi frá árinu 2014 eða a.m.k. frá árinu 2015, á þann nánari hátt sem áður greindi og áður­nefnd gögn og fram­burður mats­manns greina nánar.

Dómurinn mat mats­gerðina vel og ítar­lega unna og hafi ekkert komið fram um á­galla hennar en varnar­aðilar í málinu leituðust ekki við að hnekkja mats­gerð dóm­kvadda mats­mannsins.

Afmarkaða landið var eign ESÍ í gegnum F-Fasteignafélag.
Afmarkaða landið var eign ESÍ í gegnum F-Fasteignafélag.

Dómurinn tekur sér­stak­lega fram að ekki kom annað fram í fram­burðum ættingja og vensla­fólks Soffíu í málinu en að hún hafi átt á­gætt sam­band við fjöl­skyldu sína al­mennt, þ.e. bæði við fólk úr hópi sóknar­aðila og varnar­aðila, og hefur a.m.k. ekkert komið fram sér­stak­lega um ó­vild eða van­traust hennar í garð sóknar­aðila eða nei­kvæðar upp­á­komur í sam­skiptum þeirra á milli.

Einnig liggur ekki annað fyrir en að sam­mæli sé milli fram­burða aðila og vitna um að ein­staklingar tengdir báðum hópum máls­aðila hafi sinnt og annast hana síðustu ár hennar og fær það stoð í sjúkra­gögnum.

„Ef horft er til annarra at­riða varðandi efni erfða­skrárinnar, sem og forms og upp­byggingar hennar, liggur fyrir að í henni kemur ekkert fram beint eða ó­beint um fjár­hags­legt verð­mæti [...] landsins en með vísan til fyrri um­fjöllunar um á­ætlað virði þess hefur komið fram í málinu, án þess að því hafi verið sér­stak­lega and­mælt, að sú eign J verði talin hafa verið um 1.500.000.000 króna að verð­mæti við gerð erfða­skrárinnar. Þá liggur fyrir að þær 5.000.000 króna sem erfða­skráin mælir fyrir um að falli til sóknar­aðilans I, og er eina til­tekna fjár­hæðin sem fram kemur í erfða­skránni, eru í reynd hverfandi hluti af heildar­verð­mæti eigna J. Í því sam­bandi er vísað aftur til fyrri um­fjöllunar um það sem annars liggur fyrir í málinu um sam­band J við ættingja sína al­mennt séð sem og þess að ekki hefur verið um­deilt í málinu að I hafi a.m.k. ekki átt minni þátt en aðrir ættingjar og vensla­fólk J í per­sónu­legri um­önnun og að­stoð við hana síðustu ár hennar,” segir í dómi Héraðs­dóms.

Sem fyrr segir komst dómurinn að þeirri niður­stöðu að Soffíu hafi skort arf­leiðslu­hæfi og var því erfða­skráin dæmd ó­gild og ekki lögð til grund­vallar á opin­berum skiptum á dánar­búinu.