Fráfarandi forstjóri ÁTVR, Ívar J. Arndal, lagði til í hagræðingartillögu sinni til ríkisstjórnarinnar að flytja rekstur ÁTVR frá fjármálaráðuneytinu til heilbrigðisráðuneytisins.

Ívar segir í formála forstjóra í nýrri ársskýrslu ÁTVR að með því myndi heilbrigðisráðuneytið fá heildaryfirsýn yfir bæði áfengis- og tóbaksmálin.

Kallar eftir áfengisvarnarlögum

Ívar sendi inn hagræðingartillögu til nýrrar ríkisstjórnar eftir að forsætis- og fjármálaráðherra rituðu forstöðumönnum hjá ríkinu bréf þar sem óskað var eftir hugmyndum og sjónarmiðum um hvernig megi hagræða í rekstri ríkisins.

Tillaga Ívars fólst að hans sögn í að einfalda lagaumgjörðina sem stýrir rekstri og starfsemi ÁTVR, en hann segir núverandi löggjöf óþarflega flókna og óhagkvæma.

„Lög um ÁTVR eru í höndum þriggja ráðuneyta. Tóbakið er í höndum heilbrigðisráðuneytisins, áfengislögin í höndum dómsmálaráðuneytisins og lögin um verslun ríkisins með áfengi og tóbak í höndum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Öll ráðuneytin setja reglugerðir sem ÁTVR er skylt að fylgja.

Tillagan fólst í að sameina lögin um verslun ríkisins með áfengi og tóbak og áfengislögin og kalla sameinuð lög „áfengisvarnarlög“ til samræmis við tóbaksvarnarlögin.“

Ívar segir að þegar hafi verið tekin skref til einföldunar á regluverkinu og nú séu áfengislögin komin til fjármálaráðuneytisins.

Bíður áfram eftir lögreglunni

Viðskiptablaðið fjallaði um afkomu ÁTVR fyrir helgi en afkoma ríkisfyrirtækisins hélt áfram að versna milli ára. Samdráttur var í sölu áfengis, sígaretta og neftóbaks. Ívar rekur versnandi afkomu til erfiðs rekstrarumhverfis en þar vegi „ólögleg áfengissala“ þungt.

Fyrir ári síðan gagnrýndi Ívar sinnuleysi lögreglunnar eftir að ÁTVR kærði netverslunina Sante til lögreglunnar sumarið 2020. Nú ári síðar segir Ívar en enn sé engin niðurstaða komin hjá lögreglunni varðandi netverslun einkaaðila með áfengi „en vonandi verður þess ekki langt að bíða að lögreglan ljúki málinu“.

„Því er ekki að leyna að netsalan er farin að hafa veruleg áhrif á rekstur og afkomu ÁTVR. Með þeirri stöðu sem er uppi í dag er ÁTVR í raun komin í samkeppnisumhverfi sem stríðir beint gegn forsendum einkaleyfisins sem ÁTVR hefur. Þetta getur ekki gengið til lengdar og því mikilvægt að fá niðurstöðu sem fyrst. Ljóst er að verði áfengissala einkaaðila ekki stöðvuð er útilokað fyrir ÁTVR að halda uppi sama þjónustustigi og áður.“