Franska ríkisstjórnin hyggst þjóðnýta kjarnorkufyrirtækið Electricite de France (EDF) til að ná fullri stjórn yfir fyrirtækinu á meðan mesta orkukrísa í marga áratugi stendur yfir í Evrópu. Hlutabréf EDF, sem er þegar í 84% eigu franska ríkisins, hafa hækkað um meira en 8% eftir að Élisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands, tilkynnti þetta í ræðu á franska þinginu í dag.

„Neyðarástand í loftslagsmálum krefst róttækra ákvarðana. Við þurfum að ná fullri stjórn á framleiðslu og framtíð okkar í orkumálum. Við þurfum að tryggja sjálfstæði okkar, nú þegar við stöndum frammi fyrir afleiðingum stríðsins og risavöxnum áskorunum,“ sagði Borne á þinginu í dag. Hún greindi þó ekki nánar frá útfærslunni.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í kosningaherferð sinni í vor að þjóðnýta ætti hluta af fyrirtækinu til að auka orkusjálfstæði Frakklands og stuðla að markmiðum þjóðarinnar um kolefnishlutleysi með nýjum kjarnorkuverum.

Macron sagði fyrr í ár að ráðast þurfi í víðtæka endurskipulagningu á EDF og leggja þurfi félaginu tugi milljarða evra til að fjármagna allt að fjórtán ný kjarnorkuver fyrir árið 2050.

EDF hefur átt að stríða við ýmis vandræði í tengslum við kjarnorkuver sem eru mörg hver komin til ára sinna en þá hafa framkvæmdir á nýjum kjarnorkuverum einnig farið fram úr kostnaðaráætlun að því er kemur fram í frétt Boomberg.