Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lýsir vonbrigðum yfir 25 milljóna króna kostnaði við starfslok Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flokknum en á þriðjudaginn samþykkti meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar viðauka við fjárhagsáætlun sem nam 25 milljóna króna hækkun á fjárheimildum skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til að mæta breytingum á launa- og starfsmannakostnaði innan skrifstofunnar.
„Tillögunni fylgdu engar frekari skýringar og hún var ekki sérstaklega til kynningar. Við Sjálfstæðismenn greiddum vissulega atkvæði gegn tillögunni enda erum við á móti hvers kyns fjáraustri í yfirbyggingunni“, segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Það kom hins vegar í ljós í vikunni að fjárheimildin snéri að starfslokum Dags B. Eggertssonar, fyrrum borgarstjóra, og aðstoðarmanns hans.
„Þetta eru fráleitar upphæðir sem standast enga skoðun. Fulltrúar meirihlutans höfðu áður fullyrt að við starfslokin fengi Dagur einungis biðlaun sem nema myndu mismuni launa hans sem borgarstjóra annars vegar og formanns borgarráðs hins vegar. Hér birtist okkur hins vegar önnur mynd, og ef í ljós kemur að Dagur þiggur nú frá borgarbúum einhverjar greiðslur umfram það sem áður var upplýst, þá lít ég það mjög alvarlegum augum“, segir Hildur.
Sjálfstæðismenn í borginni hafa kallað eftir sundurliðuðum upplýsingum sem varpað geti frekara ljósi á málið.
Hildur segir greiðsluna sérstaklega ámælisverða þegar víða hefur verið skorið niður í grunnþjónustu við íbúana. Hún nefnir þar skertan opnunartíma sundlauganna sem spara mun borginni 26 milljónir í ár og niðurskurð í bókakaupum á skólabókasöfnum sem spara áttu borginni 9 milljónir.
Hún bendir einnig á opnunartíma félagsmiðstöðva fyrir unglinga sem sparaði borginni 10 milljónir eða niðurskurð til tónlistarnáms í Reykjavík sem sparaði 30 milljónir.
„Þegar greiðslur vegna starfsloka Dags eru skoðaðar í samhengi við þá þjónustuskerðingu sem borgarbúar hafa orðið fyrir í nafni niðurskurðar, þá verður manni orða vant,“ segir Hildur.
„Að undanförnu hefur málast upp mynstur gjafagjörninga við lóðaúthlutanir í borgarstjóratíð Dags. Rekstur borgarsjóðs er í rjúkandi rúst, grunnþjónusta víða í molum og í kveðjugjöf fáum við borgarbúar að greiða 25 milljónir króna vegna starfsloka Dags. Þetta þarfnast ítarlegra skýringa“, segir Hildur að lokum.