Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi Kerecis, lét sér ekki nægja að standa að næststærstu fyrirtækjasölu Íslandssögunnar fyrir hálfum mánuði. Að henni lokinni kastaði hann handsprengju inn í íslenska dægurmálaumræðu þegar hann lýsti yfir í viðtali á Sprengisandi að boðuð Borgarlína byggði á tækni gærdagsins og framtíð almenningssamgangna fælist í sjálfakandi bifreiðum.
Guðmundur uppskar mikla reiði meðal úrbanista og hjólreiðamanna á samfélagsmiðlum vegna þessara ummæla. Nú skal ekkert fullyrt um áhrif Guðmundar og hártogana á vettvangi íslenska Twitter-samfélagsins á alþjóðlegum vettvangi. Eigi að síður var fjallað um sjálfkeyrandi bíla í dálknum Lex í breska blaðinu Financial Times í kjölfarið. Í þeirri umfjöllun er ekki efast um að sjálfkeyrandi bílar eigi framtíðina fyrir sér en aftur á móti er mörgum spurningum ósvarað um hversu hagkvæmir þeir séu og hvort hagnaðarvon sé í því að halda úti flota slíkra bíla í leigubílaakstri.
Í San Francisco er nú þegar að finna sjálfakandi leigubíla. Þeir eru gerðir út af General Motors undir nafni Cruise. Fram kemur í umfjöllun Financial Times að tíu mínútna akstur kosti farþega 10 Bandaríkjadali eða sem nemur ríflega 1300 krónum miðað við gengi dalsins að undanförnu. Gjaldið samanstendur af 656 króna upphafsgjaldi og 73 krónur hvern ekinn kílómetra.
Mikið hagræði í sjálfakandi bifreiðum
Í þessu samhengi má nefna að á vettvangi leigubílastöðvarinnar er rekið eitthvað sem heitir hinu stórskemmtilega nafni Verðlagsnefnd leigubílstjóra á Hreyfli. Samkvæmt gjaldskrá nefndarinnar er kílómetragjaldið sem innheimt er af farþegum 394 krónur að jafnaði en greitt er 303 krónur fyrir fyrstu tvo kílómetrana. Við fyrstu sýn virðist mikið hagræði vera í sjálfakandi leigubílum. En rétt er að taka fram að kostnaður við slíka þjónustu verður afar breytilegur frá einni borg til annarrar sökum ólíkra aðstæðna og rekstrarumhverfis.
Bent er á í umfjöllun Financial Times að sjálfakandi gætu fræðilega séð verið enn hagkvæmari. Vitnað er til úttektar Global Policy Solutions þar sem að komist er að þeirri niðurstaða að miðað við eðlilega arðsemiskröfu ætti kílómetragjaldið að vera 60 krónur á kílómetra til að standa undir tryggingum og rekstrarkostnaði. Aðrir hafa boðið betur. Þannig komst bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley að þeirri niðurstöðu árið 2016 að kílómetragjaldið þyrfti að ekki að vera meira en 40 krónur til að standa undir arðsemiskröfu og kostnaði þá og þegar rekstur slíkra bíla verður orðinn almennur. Greiningarfyrirtækið Lux Research telur að krónutalan sé nær 34.
Mikill taprekstur og ætlaðar tekjur
En inni í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir rannsóknar- og þróunarkostnaði. Þannig kemur fram í umfjöllun Financial Times að þrátt fyrir að þróun slíkra bíla hafi staðið yfir í ríflega tvo áratugi sé kostnaðurinn enn mikill og enn langur vegur frá því að leiguakstur sjálfakandi bíla sé arðbær. Cruise, áðurnefnt félag General Motors, gerir ráð fyrir að tekjur félagsins verði orðnar fimmtíu milljarðar Bandaríkjadala árið 2030. Félagið skilaði aftur á móti 561 milljón dala tapi fyrir fjármagnsliði á fyrsta ársfjórðungi og tekjurnar námu eingöngu 30 milljónum dala á tímabilinu.
Þá er bent á í umfjöllun Financial Times að taka þurfi að taka tillit til kostnaðarliða á borð við þrif. Ólíkt hefðbundnum leigubílum er eðli málsins samkvæmt enginn ökumaður í sjálfakandi bifreið til þess að gæta upp á að farþegar skilji ekki við bifreiðina í óásættanlegu ástandi að akstri loknum.
Afþreying til að ná niður kostnaði
En að sama skapi gætu aðrir þættir þrýst verðinu niður: Ódýrara gæti verið að nota ratsjár og myndavélar til að lóðsa bifreiðarnar um borgarstrætin í stað svokallaðrar Lidar-tækni sem er nú er stuðst við. En það gæti verið á kostnað öryggi slíks aksturs.En það sem höfundur dálksins Lex telur líklegast að gerist er að afþreyingarefni í bifreiðunum sjálfum muni vega á móti kostnaði. Það er að segja auglýsingar á skjáum sem farþegar horfa á meðan þeim er skutlað muni mynda sjálfstæðan tekjustofn sem á endanum muni leiða til lægra kílómetragjalds.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði