mánaðarskýrsla HMS gefur merki um að fasteignamarkaðurinn fari áfram kólnandi og að eftirspurn dragist saman. „Þó ríkir ekki frost á markaðinum eins og var á árunum eftir hrun. Umsvifin eru álíka eins og árin 2013-2014.“

Framboð íbúða til sölu hefur aukist hratt undanfarna mánuði. Á landinu öllu eru nú 2.392 íbúðir til sölu en þær voru 2.145 í byrjun nóvember. Þar af eru 1.429 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og hefur þeim fjölgað um 112 frá því í byrjun nóvember.

Af íbúðum til sölu hefur hlutdeild nýrra íbúða vaxið hraðar en framboð eldri íbúða.

Ekki færri kaupsamningar frá árinu 2013

Hagdeild HMS segir að verulega hafi dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði alls staðar á landinu miðað við útgefna kaupsamninga. Á höfuðborgarsvæðinu voru útgefnir kaupsamningar í október 382 talsins miðað við árstíðaleiðréttar tölur og hafa þeir ekki verið færri síðan 2013.

Samdrátturinn er sagður hafa verið sérstaklega hraður í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins undanfarið en þar voru útgefnir samningar 96 í október og 92 í september en til samanburðar voru þeir 151 í ágúst.

„Þrátt fyrir að framboð nýrra íbúða hafi aukist meira en annarra þá hefur hlutdeild þeirra í sölutölum ekki aukist á höfuðborgarsvæðinu. Það sætir tíðundum að í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur hlutdeild nýrra íbúða í sölutölum lækkað skarpt undanfarna mánuði,“ segir hagdeildin.

„Mögulega er það vísbending um að dregið hafi meira úr eftirspurn í nágrannasveitarfélögunum en á höfuðborgarsvæðinu. Ein möguleg skýring er að framboð íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu sé orðið nægt þannig að fólk sem hefur yfir höfuð tök á því að kaupa íbúðir geti keypt þar.“

Mun færri íbúðir seljast yfir ásettu verði

Á undanförnum tveimur árum jókst hratt hlutfall íbúða sem seldust yfir ásettu verði. Só þróun hefur þó snúist við á síðustu misserum.

Á höfuðborgarsvæðinu seldust 19,7% íbúða yfir ásettu verði í nóvember samanborið við 24,3% í október en þegar mest var, í apríl síðastliðnum, seldust ríflega 65% íbúða yfir ásettu verði. Þar af seldust 13,2% sérbýla yfir ásettu verði en 21,4% íbúða í fjölbýli.