Þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi sagt viðmiðunarreglur ÁTVR vera brot á stjórnarskrá ákvað Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að halda áfram eða beita þeim. Í byrjun mánaðar tók ÁTVR tvær vörur innflutningsfyrirtækisins Dista, sem lagði stofnunina í hæstarétti, úr sölu á grundvelli reglnanna.
Um er að ræða tvær tegundir af spænsku freyðivíni, Jaume Serra Brut, sem felldar voru kjarnaflokki á grundvelli framleiðsluviðmiðs og teknar úr sölu í byrjun.
Dista mótmælti umræddri ákvörðun sem ólögmætri í bréfi til ÁTVR og benti meðal annars á að ein varan nyti meiri eftirspurnar neytenda heldur en 70 aðrar vörutegundir í sama flokki, sem þó væri haldið í kjarnaflokki á kostnað Jaume Serra Rosado Brut.
Þá hefði Jaume Serra Brut Nature Traditional Method notið meiri eftirspurnar neytenda en 58 aðrar vörutegundir í sama flokki.
ÁTVR tók ákvörðun um að henda vörum Dista úr sölu skömmu fyrir niðurstöðu Hæstaréttar í fyrra. Fyrirtækið óskaði eftir upplýsingum um það hvort framkvæma ætti hina ólögmætu ákvörðun þremur vikum eftir dóm Hæstaréttar en fékk engin svör frá ÁTVR.
![Jaume Serra Brut Nature Traditional Method.](http://vb.overcastcdn.com/images/141375.width-500.png)
Ákvörðunin kom til framkvæmda þann 1. febrúar síðastliðinn og ef vefur ÁTVR er skoðaður eru vörurnar ekki lengur til sölu þrátt fyrir eftirspurn eftir þeim.
Að mati lögmanns Distu var með þessu sýndur einbeittur ásetningur til að framkvæma ólögmæta ákvörðun sem er til þess fallin að valda umbjóðanda hans tjóni.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur ÁTVR ekkert frumkvæði sýnt að yfirbót í kjölfar dóms Hæstaréttar í desember.
Lögmaður Dista, Jónas Fr. Jónsson, hefur ítrekað bent stofnuninni og fjármálaráðherra á skyldur stjórnvalda til að virða reglur réttarríkisins og meginreglur stjórnsýsluréttar um að stjórnvöldum bæri að bæta úr þegar þau hefðu gengið á rétt borgaranna.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra fer með stjórnunar- og eftirlitsskyldur gagnvart ÁTVR.
Hæstiréttur sagði mjög skýrt að ÁTVR hefði brotið gegn lagaáskilnaðarreglu stjórnarskrárinnar með því að miða vöruúrval út frá framlegð en að mati Distu ehf. ýtti ÁTVR þannig dýrari vörum að neytendum og mismunaði vörum innflytjenda.
Innflutningsfyrirtækið Dista ehf. stefndi ÁTVR er tveir bjórar félagsins voru felldir úr sölu á grundvelli framlegðarviðmiðs þrátt fyrir að fleiri lítrar hafi selst af þeim en af öðrum bjórum í sama vöruflokki sem þó voru áfram í sölu.
ÁTVR sýndi ekkert frumkvæði að yfirbót í kjölfar dómsins og benti lögmaður Dista stofnuninni og fjármálaráðherra á skyldur stjórnvalda til að virða reglur réttarríkisins og meginreglur stjórnsýsluréttar um að stjórnvöldum bæri að bæta úr þegar þau hefðu gengið á rétt borgaranna.
Hægt er að lesa meira um málið hér að neðan.