Ljóst er að kostnaður við viðamiklar breytingar á húsnæði Seðlabankans og bygging nýrra höfuðstöðva Landsbankans er mun hærri en kostnaðaráætlanir gerðu ráð fyrir. Hleypur aukningin á milljörðum. Landsbankinn telur ekki tímabært að upplýsa um endanlegan kostnað.
Allur gangur er á því hversu miklar upplýsingar Landsbankinn og Seðlabanki eru reiðubúnir að veita um kostnað við framkvæmdir við húsnæðiskost. Seðlabankinn er reiðubúinn að gefa upp tölur við kostnað á breytingum og stækkun á húsnæði bankans við Kalkofnsveg á meðan ríkisbankinn veitir fá svör um heildarkostnað vegna byggingar nýrra höfuðstöðva bankans við Austurhöfn.
Í apríl leitaði Viðskiptablaðið eftir upplýsingum um hver kostnaðaráætlun við endurnýjun á skrifstofum Seðlabankans og hver raunkostnaðurinn verður þegar allt er yfirstaðið. Þá spurði blaðið Landsbankann um kostnaðaráætlun við að reisa höfuðstöðvar Landsbankans sem lá fyrir þegar ákveðið var að ráðast í byggingu hússins, og um heildarkostnað við verkið með virðisaukaskatti og fjölda byggðra fermetra. Einnig var spurt um raunverulegan kostnað við verkið auk áætlunar um hvað kostar að klára það og óskað var sérstaklega eftir heildarkostnaði við klæðningu og uppsetningu á klæðningu á húsinu.
Heildarkostnaður Seðlabankans um þrír milljarðar
Eins og fram kemur í svari Seðlabankans þá stefnir í að heildarkostnaður við framkvæmdir á höfuðstöðvum bankans við Kalkofnsveg verði ríflega þrír milljarðar króna. Framkvæmdin er tvíþætt. Annars vegar á einstaka hæðum höfuðstöðvanna. Tilboð var sett á tæpar 200 milljónir í framkvæmdir 2. hæðar hússins árið 2020 og var lagt með að það væri haft til viðmiðunar þegar kæmi að framkvæmdum á þremur öðrum hæðum hússins. Seðlabankinn segir að heildar framkvæmdakostnaður verði tæplega 1,2 milljarðar og segir að fyrir skömmu, þegar 80% framkvæmda var lokið, hafi greiddur kostnaður verið rúmlega fjórum prósentum umfram kostnaðaráætlun. Þá er áætlaður kostnaður við framkvæmdir á fyrstu hæð, hluta jarðhæðar, kjallara og viðbyggingu við bankann við Kalkofnsveg 1 tæpir tveir milljarðar en upphafleg kostnaðaráætlun var tæpir 1,7 milljarðar.
Nánar er fjallað um fjármál borgarinnar í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.