Árið 2024 var besta rekstrarár í átján ára sögu hugbúnaðarfyrirtækisins Kolibri, sem sérhæfir sig í notendamiðaðri hönnun og stafrænum lausnum.

Velta félagsins jókst um 16,2% milli ára, úr 552 milljónum í 641 milljón króna. Rekstrarhagnaður (EBIT) Kolibri sexfaldaðist frá fyrra ári og nam 80 milljónum króna í fyra.

Stjórn Kolibri hrósar Önnu Signýjar Guðbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra, félagsins fyrir góðan árangur í verkefnum, starfsánægju og fjárhagslegum afköstum.

Anna Signý, í krafti þess trausts sem hún nýtur meðal hluthafa, stjórnar og starfsfólks, jók nýverið við hlut sinn og gekk í hóp stærstu hluthafa Kolibri, að því er kemur fram í tilkynningu.

Anna Signý er frábær leiðtogi sem skilur bæði fólkið og fagið. Hún hefur byggt Kolibri upp af öryggi, metnaði og með því að treysta teyminu sínu til að blómstra. Það skilar sér – bæði í því að hæfileikafólk vill vinna hjá fyrirtækinu og að viðskiptavinir kunna að meta góða hönnun, gæðin og heiðarleikann sem Kolibri stendur fyrir,“ segir Ragnheiður H. Magnúsdóttir, stjórnarformaður Kolibri.

Auk Önnu Signýjar hafa einnig Steinar Ingi Farestveit, hönnunarstjóri og stjórnarmaður, og Baldur Kristjánsson, sölustjóri og ráðgjafi, aukið við eignarhlut sinn í Kolibri.

Anna Signý Guðbjörnsdóttir og Baldur Kristjánsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Á árinu 2024 vann Kolibri fyrir 23 viðskiptavini og setti í loft fjölbreytt úrval lausna, þar á meðal:

  • m.is fyrir Árnastofnun og Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • co2.is fyrir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
  • Vefur og vefverslun World Class
  • Bálkakeðjulausnir EVE Frontier fyrir CCP
  • Ákærur í Réttarvörslugátt fyrir Dómsmálaráðuneytið
  • Byggingarleyfi fyrir Reykjanesbæ, í samstarfi við HMS

Verkefnin hlutu meðal annars viðurkenninga frá Red Dot, Íslensku vefverðlaununum og FÍT (Félagi íslenskra teiknara).

„Á tímum þar sem íslenskt atvinnulíf og opinber þjónusta eru í hraðri stafrænnri umbreytingu hefur Kolibri skapað sér sess sem traustur samstarfsaðili í lausnum þar sem góð hönnun og notandinn er í forgrunni.“