Framkvæmdir eru hafnar við Reykjaböðin en um er að ræða ný náttúruböð á Árhólmasvæðinu í Hveragerði við rætur Reykjadals. Böðin eru fyrsti áfanginn í 11 þúsund fermetra heildstæðri ferðaþjónustu sem rísa mun á svæðinu.

Í tilkynningu segir að áætla megi að ferðaþjónustusvæðið geti tekið við allt að 700 þúsund gestum á ári að framkvæmdum loknum.

Þar verður einnig að finna miðstöð fyrir vinnustofur, ráðstefnusali, veitingastað og 176 gistirými í samtals 52 skálum auk núverandi starfsemi kaffihúss, verslunar og afþreyingar.

„Markmið uppbyggingar Árhólmasvæðisins er að skapa fjölbreytta þjónustu fyrir bæði íbúa bæjarins og nágrennis en einnig þá fjölmörgu ferðamenn sem heimsækja svæðið. Unnið verður að heildrænni nálgun með sjálfbærni að leiðarljósi. Mikil áhersla er lögð á upplifun og að gestir njóti náttúrunnar með aðgangi að margvíslegri afþreyingu og útivist,“ segir í tilkynningu.

Þá kemur einnig fram að Árhólmar henti vel fyrir baðstarfsemi en þar er að finna mikinn jarðhita á svæðinu og því gott aðgengi að heitu vatni.