Landsnet segir í tilkynningu að framkvæmdir á Suðurnesjalínu 2 muni hefjast á ný á næstu dögum. Framkvæmdin er á aðalskipulagi allra sveitarfélaga á leiðinni ásamt svæðisskipulagi og hafa öll fjögur sveitarfélögin á línuleiðinni samþykkt framkvæmdaleyfi.
Samið hafði verið við um 96% af landeigendum en ráðuneyti umhverfis- orku- og loftslagsmála hefur heimilað eignarnám á þeim jörðum sem ekki hafa náðst samningar við.
Byrjað verður á slóðagerð og í kjölfarið verður borað fyrir stagfestum og undirstöður settar niður. Öllum helstu innkaupum og útboðum er lokið og möstur, leiðarar og annað efni komið í framleiðslu. Þá er stefnt að því að línan verði tekin í rekstur haustið 2025.
Byrjað var á hluta framkvæmdarinnar fyrir tveimur árum á milli Rauðamels og Fitja við byggingu nýs tengivirkis á Njarðvíkurheiði, strenglagnar til Fitja og reisingu Reykjaneslínu 1 milli Njarðvíkurheiðar og Rauðamels. Gert er ráð fyrir að þessum hluta framkvæmda verði lokið í kringum næstu áramót.
„Með tilkomu Suðurnesjalínu 2, Reykjaneslínu 1 og spennistöðvar á Njarðvíkurheiði verður flutningskerfið sveigjanlegra í rekstri og afhendingaröryggi á Suðurnesjum eykst til muna. Nægjanleg flutningsgeta verður til ráðstöfunar sem getur mætt stærri frávikum þegar stórar framleiðslueiningar eða stærri notendur aftengjast kerfinu skyndilega eða til lengri tíma t.d. vegna viðhalds,“ segir í tilkynningu.