Í ávarpi sínu í nýútgefinni ársskýrslu Gildis lífeyrissjóðs fyrir árið 2024 varar Stefán Ólafsson, stjórnarformaður sjóðsins, við þeirri þróun að framlag almannatrygginga til ellilífeyris á Íslandi sé nú með því lægsta sem gerist innan OECD-ríkjanna. Hann segir að skerðingar almannatrygginga hafi aukist umtalsvert síðustu ár og að ríkið taki til sín of stóran hluta af þeim ávinningi sem annars ætti að nýtast lífeyrisþegum.

„Hér á landi snertir þetta að mestu samspil lífeyrissjóðanna og lífeyriskerfis almannatrygginga (TR), því lífeyrissjóðir hafa almennt góða möguleika á að standa við langtímaskuldbindingar sínar. Ef skerðingar í almannatryggingakerfinu verða t.d. auknar á framreikningstímabilinu þá munu loforðin ekki ganga eftir. Það hefur einmitt verið reynslan hér á landi, að skerðingar í almannatryggingakerfinu hafa aukist með tímanum,” skrifar Stefán.

Stefán bendir á að oft sé vísað í samanburðarskýrslur sem sýni að íslenska lífeyriskerfið sé meðal þeirra bestu í heimi, en að slíkur samanburður byggi á óraunhæfum forsendum – einkum þeirri að lífeyrisréttindi haldist óbreytt í áratugi.

Í reynd hafi frítekjumark gagnvart lífeyrissjóðsgreiðslum verið látið rýrna og skerðingarhlutfallið hækkað. Á árunum 2017 til 2025 hafi það mark t.d. ekki verið verðbætt, sem hafi í för með sér auknar skerðingar á lífeyrisgreiðslum.

„Þessi þróun hefur haft í för með sér að framlag almannatrygginga til ellilífeyrisgreiðslna á Íslandi er nú orðið eitt það allra minnsta í OECD-ríkjunum. Almannatryggingar ellilífeyrisþega skila of litlu. Þetta þýðir líka að ríkið tekur til sín of mikið af þeim ávinningi sem felst í árangursríkri sjóðasöfnun lífeyrissjóðanna og aftrar því að lífeyrisþegar fái notið árangurs af starfsemi lífeyrissjóðanna með eðlilegum hætti,” skrifar Stefán.

Gott rekstrarár hjá Gildi

Árið 2024 skilaði góðri afkomu fyrir Gildi. Nafnávöxtun samtryggingardeildar nam 11,8% og raunávöxtunin um 6,7%.

Fjárfestingatekjur námu tæplega 120 milljörðum króna og eignir sjóðsins jukust um 135 milljarða. Þrátt fyrir þessa sterku stöðu gagnrýnir stjórnarformaður að skerðingar kerfisins komi í veg fyrir að lífeyrisþegar njóti þessa árangurs að fullu.

Hann nefnir að núverandi ríkisstjórn hafi boðað hækkun frítekjumarks í 60 þúsund krónur á kjörtímabilinu og það sé skref í rétta átt, en enn þurfi meira til að íslenska kerfið standist alþjóðlegan samanburð með sannfærandi hætti.

Mikilvægur jöfnunarstuðningur

Stjórnarformaðurinn vekur einnig athygli á að lífeyrissjóðir sitji ekki allir við sama borð þegar kemur að örorkubyrði. Gildi, sem þjónar að miklu leyti verkafólki, glími við óvenjuháa tíðni örorku meðal sjóðfélaga.

Þessi ójöfnuður geti rýrt réttindi til ellilífeyris. Stefán telur því afar mikilvægt að stjórnvöld tryggi áframhaldandi stuðning til jöfnunar örorkubyrði, enda hafi slíkum framlögum áður verið ógnað.