Smásölufyrirtækið Hagar, móðurfélag Bónuss, Hagkaups og Olís, hagnaðist um 910 milljónir króna eftir skatta á þriðja fjórðungi fjárhagsársins 2022 sem lauk þann 30. nóvember sl, að því er kemur fram í afkomutilkynningu.

Hagnaður Haga á fjórðungnum jókst um 8% á milli ára en félagið rekur bætta afkomu til einskiptisliða. Högum barst endurgreiðsla flutningsjöfnunargjalds að upphæð 451 milljón króna með vöxtum á fjórðungnum sem færð er meðal annarra rekstrartekna hjá Olís.

Vörusala Haga á fjórðungnum nam 40 milljörðum króna og jókst um 20% frá fyrra ári, m.a. vegna hærra aðfangaverðs. Framlegðarhlutfall var 5,6% á fjórðungnum og dróst saman um 2,5 prósentustig á milli ára. Í tilkynningunni segir að hærra heimsmarkaðsverð olíu skýri einkum lækkunina en framlegðarhlutfall dagvöru hafi einnig lækkað.

EBITDA-hagnaður félagsins jókst um 2,5% og nam 2,6 milljörðum, en aukninguna má rekja til framangreindrar endurgreiðslu.

„Við erum sátt með starfsemi félagsins það sem af er ári, bæði niðurstöðu rekstrar við erfiðar aðstæður og að hafa komið í höfn mikilvægum áföngum sem munu styrkja Haga til framtíðar,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga.

„Eins og fyrr segir, þá litaðist fjórðungurinn af áframhaldandi róti á hráefnismörkuðum og hafa hækkanir og sveiflur í verði aðfanga því verið eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnenda félagsins. Þar hefur leiðarstefið verið að tryggja vöruúrval og vinna gegn hækkandi vöruverði í verslunum með hagkvæmum innkaupum og með því að leita eftir auknu hagræði í allri starfsemi.“

Finnur lýsir því einnig að veiking krónunnar og „fordæmalausar“ verðhækkanir á innlendum og erlendum aðföngum hafi óhjákvæmilega leitt til hærra vöruverðs á nauðsynjum. Á sama tíma hafi rekstrarkostnaður aukist töluvert, bæði vegna launahækkana og almennra kostnaðarhækkana.