Bandaríski matvælaframleiðandinn J.M. Smucker hefur ákveðið að senda matvagn í ferðalag til að kynna Hostess-vörumerki eins og Twinkies, Ding Dongs og Donettes. Á vef WSJ segir að ferðalagið eigi að samræmast hinum óformlega frídegi kannabis, 20. apríl.

Markaðsherferðin er fráhvarf frá hinum hefðbundnu auglýsingum Hostess þar sem megináhersla var lögð á fjölskyldur og börn.

J.M. Smucker, sem keypti Hostess fyrir 4,6 milljarða dala árið 2023, vill hins vegar blása rykið af gömlu viðskiptaáætlun fyrirtækisins og ná til breiðari hóps viðskiptavina, þar á meðal þeirra sem reykja kannabis.

Gail Hollander, markaðsstjóri Smucker, segir að Hostess væri ekki lengur eins viðeigandi og áður fyrr og að vörumerkið hafi dottið úr tísku. Hann segir að Twinkie the Kid, teiknimyndapersónan sem prýddi vörur Hostess í mörg ár, væri enn á lífi en væri í kaffipásu.

Matvaginn, sem ber heitið Munchie Mobile, mun á næstu vikum afhenda ókeypis snarl fyrir utan kannabisverslanir í New York, Massachusetts, Connecticut, Maryland og New Jersey á hverjum degi klukkan 16:20 fram að 20. apríl nk.